01/05/2024

Fíkniefna- og forvarnafræðsla á Hólmavík í kvöld

Í kvöld, þriðjudagskvöldið 15. mars, er foreldrum barna í Grunnskólanum á Hólmavík boðið á fíkniefna- og forvarnarfræðslu hjá Þorsteini Hauki Þorsteinssyni. Unglingar eru einnig velkomnir. Þorsteinn Haukur sinnir forvarnarstarfi og hefur lagt sig fram við að heimsækja alla grunnskóla á Vestfjörðum og hitta unglinga og foreldra þeirra. Fundurinn er haldinn í setustofu grunnskólans þriðjudagskvöldið 15. mars kl. 19:45. Áætlað er að hann taki um 40 mínútur. Kynningu á Þorsteini má lesa hér neðar.

Í kynningu á verkefninu og Þorsteini Hauk segir:

Ég heiti Þorsteinn Haukur Þorsteinsson og starfa sem svæðisstjóri Vífilfells á Vestfjörðum, er  tónlistarmaður og starfa að útgáfu þar að lútandi. Í átján ár starfaði ég sem tollfulltrúi  hjá Tollgæslunni í Reykjavík og á átta ára tímabili með fíknifefnahundinn Bassa. 

Árið 1999 hóf ég að þróa forvarnarstarf sem ég fór með til fermingarbarna innan og utan þjóðkirkjunnar á landsvísu og var markhópur minn börn í 8. bekk grunnskólanna. Forvarnarstarfið fékk viðurkenningar á þessum tíma, frá Tollvarðafélaginu, Saman hópnum og síðan forvarnarverðlaun VÍS.  Þá var fíkiefnahundurinn Bassi valinn þjónustuhundur ársins 2004 af H.R.F.Í. fyrir starf sitt í þágu forvarna á landinu. Einnig veitti Lionsklúbbur á Suðurnesjum okkur viðurkenningu 2004 og gáfu forvarnarstarfi Tollgæslunnar ferðaskjávarpa.

Á fyrirlestrum mínum á þessum tíma hitti ég börn og foreldra þeirra og var með markvissa fíkniefnafræðslu sem ég að hluta teiknaði í kringum fíkniefnahundinn minn.  Ég vann að forvarnarstarfinu frá árinu 1999 til 2004 og á því tímabili hitti ég þúsundir unglinga og foreldra þeirra um allt land.

Nú hef ég tekið ákvörðun um að hefja forvarnarstarf að nýju og markmið mitt er að heimsækja alla grunnskóla á Vestfjörðum og hitta unglinga og foreldra þeirra. Ég fer af stað undir eigin nafni og mun ég byggja á grunni þeim sem ég starfaði við, en að auki vera með tónlistaratriði eftir fræðsluna.