04/10/2024

Feigðarflan norður á Strandir

Í dag voru handsömuð á Ströndum ær og lamb, en þau höfðu heldur en ekki brugðið sér bæjarleið. Ærin er frá Sámsstöðum í Hvítársíðu og var á hraðferð norður á Strandir þegar hún var gripin, hefur sjálfsagt ætlað að kynna sér búskaparhætti í Árneshreppi þar sem sauðfjárræktin stendur einna fremst á landsvísu. Uggði hún ekki að sér þar sem leið lá um Tungusveit við Steingrímsfjörð, en bændur í Húsavík sátu þar við eldhúsgluggann og fylgdust með umferðinni. Brugðust þeir skjótt við þegar ókunnug ærin strunsaði hjá og klófestu bæði kind og lamb, enda er atferli sem þetta vafasamt í meira lagi.

Leiðin hefur legið yfir tvær sauðfjárveikivarnargirðingar og sjálfsagt fleiri torfærur. Á Ströndum eru bændur og búfénaður þeirra laus við landlæga smitandi sauðfjársjúkdóma, svo sem riðuveiki, og eru menn því lítt hrifnir af línubrjótum. Reyndar eru þessar kindur ekki fyrstu línubrjótarnir sem Tungusveitungar hitta fyrir í haust, því um síðustu helgi mættu ær og lamb frá Skerðingsstöðum í Dalasýslu í Kirkjubólsrétt.

Ferðin reyndist því feigðarflan hið mesta, því næst liggur leiðin í sláturhúsið.

Ær og lamb komin undir manna hendur – Ljósm. Jón Jónsson