27/04/2024

Fé sótt í Engjanes á Sædísi ÍS 67

Í vetur sást kind með tvö lömb norður á Ströndum, í Eyvindarfiði og síðast í Drangavík, þegar reynt var að ná í þær á snjósleðum um Páskana. Á dögunum var Reimar Vilmundarson á Sædísinni síðan fenginn til að fara norður í Drangavík og Eyvindarfjörð og fóru margir með til að ná féinu ef það sæist, en aðrir að gamni sínu. Í hópnum voru jafnt börn sem eldri, eins og fram kemur á fréttavefnum www.litlihjalli.it.is og þar eru einnig fleiri myndir.

Fyrst var siglt í Drangavík og þar var gúmmibátur settur út og nokkrir menn sigldu með landinu að leita. Þegar komið var inn í Eyvindarfjörð við Engjanes sást rollan með lömbin tvö og þar var mannskapur settur í land í tveimur ferðum með gúmmíbát. Smalahundurinn Grímur, hundur Björns bónda á Melum, var með í ferðinni og var hann duglegur að halda að féinu.

Ærin og lömbin náðust svo niður í fjöru í Engjanesinu og voru flutt fram í Sædísi á gúmmíbátnum. Síðan var stefnan tekin austur og haldið heim á leið og inn á Norðurfjörð eftir árangursgóða ferð. Gunnar Dalkvist Guðjónsson bóndi í Bæ í Trékyllisvík átti ána og gimbrarlömbin tvö. Gott var í sjóinn og smá innlögn, rétt andvari.

 Fé sótt

arneshreppur/580-fe-sott.jpg

Ljósm. Jón G.G. – fleiri myndir á www.litlihjalli.it.is