14/06/2024

Færð og veður

Færð og veðurFlughálka er nú um kl. 12:00 á vegum á Ströndum, enda hefur rignt á svellin á veginum. Eins stigs hiti er bæði á Steingrímsfjarðarheiði og Ennishálsi. Samkvæmt upplýsingavef Vegagerðarinnar er leiðin í Bjarnarfjörð um Bjarnarfjarðarháls þungfær og þæfingur frá Drangsnesi og inn í Bjarnarfjörð. Ófært er í Árneshrepp. Sjá nýjustu upplýsingar um veður og færð á þessum tengli.

Veðurspáin gerir ráð fyrir suðvestan 13-18 m/s með skúrum og síðar éljum seinna í dag. Vindur verði heldur hægari á morgun. Hiti 0-5 stig, en frost 1-7 stig á morgun. Veðurhorfur næstu daga hjá Veðurstofu Íslands eru eftirfarandi:

Á þriðjudag: Vestanátt, víða 8-13 m/s og él, en léttskýjað að mestu austanlands. Frost 1 til 8 stig.

Á miðvikudag: Suðvestan 8-13 m/s og rigning eða slydda, en hægari norðlæg eða breytileg átt og snjókoma með köflum norðvestantil. Hiti 0 til 5 stig, en vægt frost norðvestanlands.

Á fimmtudag: Suðvestanátt og él, en léttskýjað austanlands. Kólnar.

Á föstudag (Gamlársdag): Hvöss sunnanátt og rigning eða slydda, en mun hægari suðvestanátt og él undir kvöld. Hiti 0 til 6 stig, en kólnar síðdegis.

Á laugardag (Nýársdag): Suðvestanátt og él, en bjartviðri norðaustantil.