14/10/2024

Fækkar í Norðvesturkjördæmi

Norðvestur-kjördæmi er eina kjördæmið þar sem íbúum hefur fækkað síðustu fjögur ár. Þetta sýna tölur sem fram koma í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möller, alþingismanns og ná yfir tímbilið 2001-2005. Hefur íbúum á þessu tímabili fækkað í Norðvesturkjördæmi úr 30.273 í 29.935 eða um 1,1%. Af einstökum sveitarfélögum á landinu öllu varð mest fækkun á þessu tímabili í Broddaneshreppi á Ströndum eða um 24,3%. Næst koma Fáskrúðsfjarðarhreppur með 23,8% og Raufarhöfn með 23% fækkun.

Í öðrum sveitarfélögum á Ströndum varð einnig fækkun á tímabilinu 2001-2005. Í Árneshrepp var fólksfækkun 15,3% og í Kaldrananeshreppi 15,8%. Í Hólmavíkurhreppi varð 5,3% fækkun á tímabilinu samkvæmt svarinu, og 1,9% í Bæjarhreppi.

Mest fjölgun varð á þessu tímabili í Fljótsdalshreppi um 332,9% og síðan 46,6% í Skilmannahreppi.