27/04/2024

Ennþá vetur á Steingrímsfjarðarheiði

Í blíðskaparveðri á heiðinni í maí 2007Þótt sumardagurinn fyrsti sé liðinn er veturinn aldeilis ekki búinn að sleppa klónum á Steingrímsfjarðarheiðinni. Laust fyrir miðnættið síðastliðið sunnudagskvöld fékk björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík beiðni frá lögreglu um aðstoð á Steingímsfjarðarheiði. Éljagangur og skafrenningur var á heiðinni og hún orðin ófær. Bifreið var föst í skafli á veginum við Margrétarvatn og var hún losuð og hjálpað vestur af heiðinni og vegfarendum á annarri bifreið sem kom þar að var snúið aftur til Hólmavíkur. Aðgerðum björgunarsveitarinnar á heiðinni var lokið klukkan hálf þrjú.

Steingrímsfjarðarheiði er enn sem einn jökull á að líta. Óráð verður að teljast að leggja á heiðina á vanbúnum bílum að nóttu til eftir að þjónustu Vegagerðarinnar lýkur ef minnstu líkur eru á ófærð eða óveðri. Þegar frost er á heiðinni, þá fer lausasnjó að skafa þegar vindur fer yfir sex metra á sekúndu og færð getur því spillst.

Frá þessu er sagt á vef Dagrenningar – www.123.is/dagrenning.