28/05/2024

Enn finnst fé á fjalli

Fé er enn að finnast á fjalli á Ströndum þó langt sé komið fram í janúar. Þann 17. þessa mánaðar fann Jóhann Ragnarsson í Laxárdal 6 kindur á Laxárdalsheiði við sýslumörk Stranda- og Dalasýslu. Voru kindurnar orðnar verulega aflagðar og var þeim ekið í hús.

Í hópnum voru tvö lömb frá Valdasteinsstöðum, eitt lamb frá Sólheimum, ein á frá Jóhanni sjálfum og ein dilkær frá Gillastöðum í Dölum. Þetta var þó fjarri því að vera síðasti fjárfundurinn hjá Hrútafjarðarbændum þennan veturinn.

Þann 19. janúar fór Jóhann ásamt Jóni Lárussyni á Borðeyri til leitar á vélsleðum. Þeir félagar fundu þá eitt lamb við Hvítfoss í Skeggjagili, en lambið var frá Svarfhóli í Dölum. Síðastliðinn föstudag, 21. janúar, fóru Jóhann og Jón aftur til leitar á tveimur vélsleðum og fundu þá fjórar ær og eitt lamb á lífi í snjógjótu í gili fram undir Geldingarfellum.

Snjógjótan sem kindurnar höfðust við í var um það bil fjögurra metra djúp og tveggja metra breið. Féð hafði vatn að drekka og gjótan veitti gott skjól fyrir veðrum og vindum. Kindurnar gátu einnig varist tófunni betur þar en á víðavangi, en engu að síður hafði lágfóta náð að drepa eitt lamb úr hópnum og draga það á opið svæði. Krökkt var af tófuförum í kring um svæðið og víða um fjallið.

Í þessum hópi voru tvær ær og lamb frá Steinum í Stafholtstungum og tvær ær frá Giljalandi í Haukadal. Voru þær veðurbarðar og hefðu ekki lifað mikið lengur við þessar aðstæður. Jóhann og Jón handsömuðu kindurnar og fluttu á aftanísleða til byggða.

Hér má sjá gjótuna sem kindurnar höfðust við í. Á myndinni má sjá feðginin Jón Lárusson og Helgu Dögg Jónsdóttur.

Kindurnar komnar í hús, veðurbarðar og kafloðnar af klaka og snjó en eflaust ánægðar með að vera lausar úr gjótunni. – ljósm. Sveinn Karlsson