28/03/2024

Engin stafræn útsending komin á Strandir

Í frétt á vef Bæjarins Besta í dag segir að Digital Ísland sé komið í gagnið á Vestfjörðum öllum eftir að flokkur frá þjónustufyrirtækinu Mömmu fór um svæðið og tengdi nýja myndlykla hjá notendum til að ná útsendingunni. Bolungarvík var síðasti áfangastaðurinn hjá flokknum, en stafræn útsending hófst þar í gærdag. Strandir eru hins vegar ekki hluti af Vestfjörðum, a.m.k. ekki í þessu sérstaka átaki, því enginn hefur orðið var þjónustuflokkinn hér á svæðinu og stafræn útsending ekki hafist. Menn þurfa þó ekki að örvænta, því samkvæmt upplýsingum sem strandir.saudfjarsetur.is fengu frá fyrirtækinu fyrr í mánuðinum munu stafrænar útsendingar á Ströndum hefjast nú í febrúar. Það er án efa tilhlökkunarefni fyrir Strandamenn að fá innan skamms að njóta sömu útsendingargæða og önnur svæði á Vestfjörðum gera nú. 

Á þeim nýju stöðum á Vestfjörðum sem útsendingar Digital Ísland ná til eftir breytingarnar verða eftirtaldar stöðvar í boði: RÚV, Stöð 2, Stöð 2 bíó, Sýn, Sýn Extra 1, Sirkus og Skár 1. Þá hefur Digital Ísland ákveðið að bæta einni erlendri stöð við þær stöðvar sem eru sendar út í opinni dagskrá og hefur fréttastöðin Sky News orðið fyrir valinu. Sky News verður því aðgengileg og opin öllum þeim sem hafa myndlykil frá Digital Íslandi um leið og skipt er yfir í starfrænar útsendingu. Einnig verður hægt að hlusta á nokkrar útvarpsstöðvar sem ekki hafa náðst áður í gegnum sjónvarpið.