26/04/2024

Ekki niðurskurður – frestun !

Aðsend grein: Sigurjón Þórðarson
Á síðustu misserum hefur talsvert verið rætt um ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. Ríkisstjórnin hefur skellt skollaeyrum við öllum viðvörunum um langt skeið um ójafnvægi í þjóðarbúskapnum og snúið út úr öllum viðvörunum. Flokkarnir hafa sagt þetta vera eitthvert niðurrifsraus í stjórnarandstöðunni og þær viðvaranir sem hafa komið erlendis frá vera vegna þess að erlendir aðilar væru illa upplýstir. Það kom þó að því að ríkisstjórnin viðurkenndi að ekki væri allt með felldu enda mældist verðbólga í liðlega 15%.

Það var ekki fyrr en í lok júní s.l. að ríkisstjórnin vaknaði og boðaði aðgerðir sem ýmsir málsmetandi hagfræðingar hafa gefið þá einkunn að væru allt of seint fram komnar. Þær fólust meðal annars í því að hætta við 90% kosningaloforðalán Framsóknarflokksins og lækka hámarkslán til íbúðakaupa en ríkisstjórnin hafði hækkað þessi lán fyrir þremur mánuðum síðan. Þetta hringl sýnir í hnotskurn hvers konar hringlandavitleysa efnahagsstjórnin hefur verið á síðustu mánuðum.

Með þessum aðgerðum er í raun verið að játa að nýlegar aðgerðir  ríkisstjórnarinnar hafi verið algjört óráð.

Ríkisstjórnin ræðst gegn verðbólgunni á Vestfjörðum

Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur hafa  tekið þá ákvörðun sameiginlega að blása af vegaframkvæmdir á Vestfjörðum þar sem vegir eru verst farnir og varla færir flutningabílum sem eru orðnir eina flutningaleiðin eftir að sjóflutningar lögðust af. 

Á sama tíma og það er verið að blása af framkvæmdir sem styrkja innviði samfélagsins, þ.e. til vegamála, boðar Björn Bjarnason að sett verði á fót  þjóðaröryggisdeild sem fyrst um sinn verði 25-30 manna stofnun. Sömuleiðis gefa ráðamenn í skyn að of seint sé að fresta gerð tónlistarhúss og fimm stjörnu hótels í Reykjavík á næsta ári sem hið opinbera tekur þátt í að reisa.

Hringlið heldur áfram

Þriðjudaginn 4. júlí var haldinn fundur með þingmönnum Norðvesturkjördæmisins og þeim kynntar niðurskurðartillögur ríkisstjórnarinnar og á þeim fundi mátti skilja að ekki yrðu boðin út á Vestfjörðum nein verk. Ráða og skipulagsleysið var algjört þar sem ekki var hægt að fá neinar upplýsingar hvað niðurskurðurinn ætti að hljóða upp á háar fjárupphæðir eða hvort að það ætti að slá verkum á frest í mörg ár. Vel að merkja þá tók Einar Kristinn Guðfinnsson það skýrt fram að ekki væri um niðurskurð að ræða heldur frestun! 

Sannast sagna  veit ég hvort að það er hægt að sé að ganga lengra í orðhengilshætti en ráðherrann gerði þarna. Að vísu hefur ráðherranum oftsinnis tekist vel upp með útúrsnúninga og orðhengilshátt í umræðu um sjávarútvegsmál.   

Hvað ætli vestfirski sjávarútvegsráðherrann sé ekki búinn að lofa Vestfirðingum oft breytingum á kvótakerfinu fyrir kosningar og svikið jafnharðan eftir kosningar?

Hvað ætli vestfirski sjávarútvegsráðherrann hafi ekki oft lofað Bíldælingum að endurreisn fiskvinnslunnar væri á næstu grösum sem hefur verið lokuð á annað ár?

Sigurjón Þórðarson
þingmaður Frjálslynda flokksins