27/04/2024

Glæpur gegn þjóðinni

Aðsend grein: Jón Bjarnason, þingmaður VG
Einkavæðing Ríkisútvarpsins hefur nú algjöran forgang meirihlutans á Alþingi. Kjör aldraðra og láglaunafólks, smánarlaun fólks  við umönnunarstörf og skortur á fólki til starfa á hjúkrunarheimilum, sem brýnt er að tekið verði á, fá ekki umræðu og úrlausn á þingi. Forysta Framsóknarflokksins og frjálshyggjulið Sjálfstæðisflokksins barðist fyrir því að auðlindin vatn, rigningin og snjórinn verði í einkaeign. Með samstilltu átaki stjórnarandstöðunnar tókst að fresta gildistöku þeirra laga þar til eftir næstu kosningar. Fyrr hefði mörgum framsóknarmanninum þótt það tíðindi að forysta flokksins og nýfrjálshyggjuliðið í Sjálfstæðisflokknum gengju þannig í eina sæng.

Einkavæðing á Rarik var samþykkt og nú eru það verkefni Ríkisútvarpsins, Íbúðalánasjóðs, Matvælaeftirlits, Landhelgisgæslu og Flugmálastjórnar sem fara næst á sölulista nái áform ríkisstjórnarinnar fram að ganga.
Menn eru jafnvel reiðubúnir að fórna millilandaflugvellinum okkar í Keflavík. Það er eins og ríkisstjórn sé haldin einkavæðingaræði.

„Einkavætt og selt“

Á síðastliðnum 10 árum hafa sterk öfl innan Sjálfstæðisflokksins barist fyrir að Ríkisútvarpið yrði bútað niður og selt. Og eftir 2000 hefur það verið opinbert baráttumál ungliðahreyfinga Sjálfstæðisflokksins. Bæði í fyrra og einnig í vetur fluttu  forystumenn í þingliði Sjálfstæðisflokksins frumvarp um brottfall laga um Ríkisútvarpið. Flutningsmenn tala þar tæpitungulaust:  Fyrst skal það hlutafélagavætt og svo selt. Í  síðustu útgáfu frumvarps þessara andstæðinga Ríkisútvarpsins segir:  :„Einkavæðing RÚV: Með frumvarpi þessu er lagt til  að lög  nr. 122/ 2000 um Ríkisútvarpið verði felld úr gildi 1. janúar 2007 en nánar tilgreind ákvæði þeirra verði tekin upp í útvarpslög nr. 53/2000. Stofnað verði hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins og það selt.“

Þarna tala pólitískir sálufélagar framsóknarmanna.

Framsókn gengin í björg einkavæðingar?

Einstaka stjórnarliðar reyna að slá um sig sauðagæru og tala með holum hljómi um að ekki standi til að selja RÚV, hf. Stofnun nýs lögaðila um útvapið sé bara formbreyting. Það er þó eins og þeir finni á sér að enginn trúi þeim. Nákvæmlega sama var sagt þegar einkavæðing Landsímans hófst. Hann yrði ekki seldur. Hvernig fór? Jú, hann var seldur með grunnneti og öllu saman þvert á gefin loforð og  gegn vilja meginþorra þjóðarinnar. Sú var tíðin að framsóknarmenn hreyktu sér af því að þeim væri treystandi til að standa vörð um Ríkisútvarpið sem sameign allra landsmanna. Þeir stæðu gegn hugmyndum og vilja sjálfstæðismanna um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Nú er ljóst að forysta Framsóknarflokksins er að svíkja  þau loforð og  kyngir fórn Ríkisútvarpsins klígjulaust enda samvinnuhugsjónin og félagshyggjan djúpt niðri í skúffu. Þeir sem æmta þar á bæ eru fljótt kveðnir í kútinn.

Útvarpsstjóri þulur ríkisstjórnarinnar

Þáttur Páls Magnússonar útvarpsstjóra í umræðunni um útvarpið er með eindæmum, en hann hefur stigið fram á ritvöllinn og gerst ákafur  erindreki ríkisstjórnarinnar í aðförinni að Ríkisútvarpinu og réttindum starfsfólki þess.

Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi ritstjóri Fréttablaðsins segir í góðri grein í Fréttablaðinu sumardaginn fyrsta um bein afskipti útvarpsstjóra af umræðunni:

„Útvarpsstjóri er jafnframt þeirri stöðu sinni þulur á  fréttastofu Sjónvarpsins og er maklega virtur fyrir það. Með því að blanda sér í opinbera umræðu um eitt mesta pólitíska deilumál þessa þings á þann veg sem hann hefur gert kemur hann aukheldur fram sem eins konar þulur ríkisstjórnarinnar í málinu. Sennilega er það í fyrsta skipti sem útvarpsstjóri gerist með svo skýrum hætti þátttakandi í stjórnmáladeilum."

Hver sem endalok frumvarpsins um að háeffa RÚV verður, hefur útvarpsstjóri með afskiptum sínum rýrt verulega þann trúverðugleika sem maður í hans stöðu gagnvart þjóðinni verður að ráða yfir. Víst er að þjóðin er að vakna til varnar þjóðarútvarpinu sínu.

Stjórnarandstaðan á Alþingi mun sameinuð berjast fyrir hagsmunum þjóðarinnar og gegn því að Ríkisútvarpinu verði fórnað. Þjóðin getur treyst því að þingmenn Vinstri grænna  munu í þeim efnum ekki láta sitt eftir liggja.
 
Jón Bjarnason þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs