06/05/2024

Svik og prettir Sjálfstæðisflokksins í flugvallarmálinu

Aðsend grein: Jón Bjarnason, þingmaður
Blekið var ekki þornað á samningnum við Ólaf F. Magnússon þegar forystumenn Sjálfstæðisflokksins í borginni höfðu svikið hann í flugvallarmálinu. Aðalbaráttumál Ólafs og F-listans var að flugvöllurinn yrði áfram í Vatnsmýrinni. Á það benti hann þráfaldlega er hann var spurður um meirihlutaslitin og rökin fyrir samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Á fundi sjálfstæðismanna á Hótel Sögu sl. laugardag lýstu borgarfulltrúar flokksins því hins vegar yfir að þetta með flugvöllinn væri allt í plati. Þessa prettir hafa síðan verið áréttaðir í fréttum: „Það er mín eindregna skoðun að það eigi að byggja í Vatnsmýrinni og þar á að vera íbúðabyggð til framtíðar,“ sagði Gísli Marteinn Baldursson og aðrir borgarfulltrúar fylgdu eftir. Sér nú hver heilindin.

Heilindi skortir

Ólafur F. Magnússon hefur lagt mikið undir en situr nú fastur í svikamyllu Sjálfstæðisflokksins. Hvers vegna þurftu Sjálfstæðismenn að ganga á bak orða sinna  strax á öðrum degi með þessum yfirlýsingum? Þeim er greinilega ekkert heilagt. Svardagarnir við Ólaf virtust ekki koma borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins neitt við.
Mér finnst þessi framkoma forystumanna Sjálfstæðisflokksins gagnvart Ólafi með eindæmum. Þau gátu að minnsta kosti sýnt þá nærgætni að bíða með að opinbera pretti sína við Ólaf uns öldurnar lægðu vegna makalausra vinnubragða við meirihlutamyndunina.

Höfuðborgarflugvöllur í Vatnsmýrinni

Ég á samleið með miklum meirihluta Reykvíkinga sem vilja axla ábyrgð höfuðborgar og hafa innanlandsflugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni. Ný skoðanakönnun sýnir að yfir 60%  borgarbúa vilja hafa flugvöllinn þar áfram. Það eru nóg verkefni óunnin í samgöngumálum þó ekki sé farið að kasta tugum milljarða króna í nýjan flugvöll að óþörfu.

Það má vera að menn telji sig hafa þessa tugmilljarða til umráða, sem nýr völlur kostar. Er þá ekki réttari forgangsröðun að hækka laun hjúkrunarfólks og kennara í leik- og grunnskólum sem nú er í fjársvelti? Ætli þjóðin vilji ekki heldur að þessir fjármunir renni til velferðarkerfisins og höfuðborgarflugvöllurinn standi óhreyfður áfram?

Mál allra landsmanna

Flugvöllurinn í höfuðborginni hefur grundvallarþýðingu fyrir öryggi og skipulag samgangna í landinu. Flugvöllurinn og staðsetning hans kemur því landsmönnum öllum við. Ég geri mér grein fyrir að skoðanir eru skiptar um málið.

Staðreyndin er hinsvegar sú að mér vitanlega hefur enginn stjórnmálaflokkur samþykkt  stefnu þess efnis, að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni eða frá Reykjavík. Gildir það jafnt um flokksfélögin í Reykjavík sem og landsfundi einstakra stjórnmálaflokka. Þvert á móti liggja fyrir samþykktir og fjöldi áskorana félaga um land allt að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

Að mínu mati eru því hvorki pólitískar forsendur né umboð til staðar fyrir því að ýta flugvellinum út úr Vatnsmýrinni í Reykjavík  né  heldur sem  réttlæta það  að láta vinna nýtt skipulag fyrir svæðið án þess að flugvöllurinn sé þar inni.

Samkvæmt núverandi aðalskipulagi höfuðborgarinnar og gildandi samgönguáætlun sem Alþingi hefur samþykkt er flugvöllurinn áfram í Vatnsmýrinni.

Jón Bjarnason þingmaður VG
www.jonbjarna.blog.is