12/09/2024

Sauðfjársetrið sækir í sig veðrið

Fremur dræm aðsókn var að Sauðfjársetri á Ströndum í júní að sögn Jóns Jónssonar talsmanns setursins: "Þeir dagar þar sem eitthvað hefur verið um að vera standa upp úr. Yfir 200 manns komu á Furðuleikana og einnig var ágæt mæting á spurningakeppnina okkar á Hamingjudögum á Hólmavík og svo á þjóðhátíðarkaffið 17. júní. Annars virðist okkar helsti markhópur ennþá vera lítið á ferðinni, íslenskt fjölskyldufólk og bændafólk. Það kemur vonandi seinni partinn í júlí og ágúst."

Framundan eru skemmtanir á Sævangi og tvö íþróttamót eru þar í næstu viku, Héraðsmót HSS á laugardaginn og Barnamót í vikunni á eftir. "Síðan erum við að ræða hvort við höldum Sumarhátíð, okkar árlegu kraftakeppni, og svo Dráttarvéladag og Bændahátíð þetta árið. Það fer eftir því hvernig gengur að fá fólk í undirbúninginn. Hins vegar er ákveðið að helgin 26.-27. ágúst verður ein af stóru helgunum hér á Ströndum. Þá verður Landsmót hagyrðinga á Hólmavík laugardaginn 26. ágúst og hefst kl. 20:00 og daginn eftir verður Meistaramót í hrútadómum og hrútaþukli á Sævangi frá 14-18."

Jón segir að sennilega séu margþættar skýringar á því hversu lítil lausatraffík Íslendinga er ennþá: "Auðvitað hefur HM í fótbolta einhver áhrif, en það er of einfalt að kenna því ágæta móti alfarið um. Ég er hræddur um að þetta sumar verði alls ekki gott ferðasumar þegar upp verður staðið. Veðrið hefur ekki verið hagstætt, ég held t.d. að úrkoman hér í júní hafi verið tvöföld meðalúrkoma í þeim mánuði. Og það rignir ennþá þessa vikuna og spáir áfram komandi helgi. Við Strandamenn og Vestfirðingar verðum líka að átta okkur á að það eru ekki Vesturland og Norðurland vestra sem eru okkar helstu samkeppnisaðilar um þennan markað, heldur Norðurlöndin, Spánn og Ítalía. Bensínverð og verðbólga dregur líka úr ferðahug hjá hópi sem er mjög mikilvægur fyrir okkur."

"Það dregur hins vegar úr niðursveiflunni að sífellt fleiri útlendingar ferðast á eigin vegum, á bílaleigubílum, og skipuleggja ferðirnar sínar sjálfir. Við Strandamenn og Vestfirðingar njótum góðs af því," segir Jón.

Sauðfjársetrið er opið 10-18 alla daga. Bæði er kaffistofa og sjoppa á staðnum, sögusýningin Sauðfé í sögu þjóðar og lítil minjagripaverslun. Heimalningarnir Snoppa og Sprettur sem eru komnir af forystufé halda sig í grennd við sýninguna og hægt er að taka þátt í að gefa þeim mjólk úr pela.