27/02/2024

Ekkert að frétta af Fjórðungsþingi

Fjórðungsþing Vestfirðinga var haldið m liðna helgi á Patreksfirði. Engar fréttir hafa borist vefnum strandir.saudfjarsetur.is
um þennan fund og það sem þar fór fram, en á fjórðungsþingi hittast
vestfirskir sveitarstjórnarmenn og voru allmargir hreppsnefndarmenn af
Ströndum á meðal þeirra. Á heimasíðu Fjórðungssambands Vestfjarða er engar nýjar fréttir að hafa, en nálgast má dagskrá þingsins og nefndaskipan á vef AtVest undir tenglinum útgefið efni. Þá birtist rétt í þessu viðtal við www.bb.is þar
sem formaður samtakanna Guðni Geir Jóhannesson á Ísafirði segir
nauðsynlegt að bera fréttir af því út í samfélagið svo ekki sé
litið á þetta sem einhvern einkaklúbb eða fólk fái á tilfinninguna að
þarna komi menn einungis saman til að eiga góða kvöldstund.

Í frétt bb.is segir síðan: „Hann segist hafa saknað nærveru
fjölmiðla á þinginu og spyr hvort e.t.v. sé starf þess of jákvætt til
að fjölmiðlar hafi áhuga á. Aðspurður um hvort aðstæður
landshlutafjölmiðla sem ekki hafi bolmagn til að gera út
fréttaleiðangra og helga fjölda vinnustunda sama efninu, kalli e.t.v. á
aukna upplýsingagjöf beint af þinginu, t.d. með því að ráða
upplýsingafulltrúa tímabundið eða miðla fréttatilkynningum, segir hann
reynsluna í ár að minnsta kosti kalla á þá umræðu. … Hann telur
umhugsunarefni að aðeins um helmingur þeirra 60-70 sveitarstjórnarmanna
sem mæti til leiks sitji allt þingið. Á seinni deginum eru tillögur
þingsins bornar upp til afgreiðslu og þá sé það þröngur hópur sem stýri
ferðinni."