22/12/2024

Draugar og tröll og ósköpin öll á laugardagskvöldið

sta29

Heilmikil þjóðtrúarkvöldvaka verður haldin í Sauðfjársetrinu í Sævangi laugardagskvöldið 6. september kl. 20:00 og eru allir sem áhuga hafa velkomnir. Yfirskriftin á kvöldvökunni er Draugar og tröll og ósköpin öll. Verða haldin nokkur skemmtileg og fróðleg innlegg um þjóðtrú og þjóðsögur, auk þess mun Íris Björg Guðbjartsdóttir á Klúku flytja eigin lög. Einnig verður kynngimagnað kvöldkaffi á boðstólum sem enginn verður svikinn af. Þjóðtrúarkvöldvakan er haldin í tengslum við sýninguna Álagablettir sem hefur nú verið uppi á sviðinu í Sævangi í eitt ár og verður áfram uppi að minnsta kosti út næsta sumar. Þar er fjallað í máli og myndum um álagabletti, fornmannahauga og huldufólk á Ströndum. Verkefnið Álagablettir hefur notið stuðnings Safnasjóðs og Menningarráðs Vestfjarða. 

Eftirtalin erindi verða flutt á þjóðtrúarkvöldvökunni:

Jón Jónsson, þjóðfræðingur frá Steinadal – Afturgöngur og aðrir ættbálkar drauga.
Guðlaug G. I. Bergsveinsdóttir, þjóðfræðinemi á Gróustöðum – Fjársjóður og feigð í fiðurfénaði
Dagrún Ósk Jónsdóttir, íslensku- og þjóðfræðinemi á Kirkjubóli – Gengið í fossinn: Álög, skrímsli og vatnavættir
Magnús Rafnsson, forstöðumaður Þjóðfræðistofu og sagnfræðingur á Bakka – Trunt, trunt og tröllin á Ströndum

Frítt er inn á kvöldvökuna sjálfa, en í boði verður dulmagnað kvöldkaffi á kr. 1.500.- fyrir fullorðna. Einnig er frítt inn á sýningar safnsins, þar á meðal list- og sögusýninguna Álagablettir og nýja sérsýningu um Brynjólf Sæmundsson sem var héraðsráðunautur á Ströndum í meira en 40 ár, en hún var opnuð á hrútaþuklinu í ágúst. Dagrún Ósk Jónsdóttir hefur umsjón með þjóðtrúarkvöldvökunni og er kynnir kvöldsins.

Myndin hér að ofan er  af tröllkerlingunni Þjóðbrók þar sem hún stendur steinrunnin í Þjóðbrókargili í Selárdal á Ströndum og er tekin af Jóni Jónssyni.