13/12/2024

Drangsnesvegur boðinn út á næstu dögum

Vegir á StröndumÍ svari svæðisstjóra Vegagerðarinnar við fyrirspurn strandir.saudfjarsetur.is um vegaframkvæmdir á Ströndum á þessu ári kemur fram að hluti Drangsnesvegar (nr. 645) verður boðinn út á mánudaginn kemur, 16. apríl. Er þar væntanlega um að ræða veginn frá Hálsgötugili að Kleifum, en 60 milljónir eru settar í verkið á árinu 2007 og 44 á árinu 2008 samkvæmt Samgönguáætlun. Af öðrum framkvæmdum ársins á Ströndum er það að frétta að reiknað er með að vinna við breikkun vegarins í Bitrufirði hefjist í haust og nýtt slitlag verði lagt á hann sumarið eftir. 

Þá er reiknað með að breytingar á vegstæði og brúargerð á hringveginum í Hrútafjarðarbotni verði boðnar út í maí eða júní, en þar hefur verið beðið eftir breytingu á aðalskipulagi hjá Húnaþingi vestra og Bæjarhreppi.

Í nýsamþykktri Samgönguáætlun 2007-2010 er framlag til Strandavegar, Ásmundarnes – Kaldbaksvík, árið 2007 upp á 23 milljónir. Þessi upphæð er hins vegar ekki til nýrra framkvæmda, heldur er um að ræða eftirstöðvar kostnaðar vegna fyrra verks. Engin vegagerð verður því í gangi norðan Steingrímsfjarðar á þessu ári, nema ef ske kynni að farið verði í brúna yfir Bjarnarfjarðará, en fjárveiting í hana er til ónotuð frá árinu 2006.

Af vef Vegagerðarinnar að dæma hefur ekki enn verið samið við verktaka um vegagerðina um Arnkötludal.