03/05/2024

Byrjað að draga á miðvikudag í heimabingói Sauðfjársetursins


Fyrstu tölurnar í heimabingói Sauðfjársetursins verða birtar 28. nóvember, en ekki í dag eins og til stóð. "Ástæðan er sú að mikið af spjöldum var sent í pósti víða um land og við viljum að þau verði komin til skila þegar byrjað verður," segir Ester Sigfúsdóttir framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins og heimabingóstjóri. Tölurnar verða birtar hér á strandir, á facebooksíðu Sauðfjársetursins og í Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík, en einnig er hægt að hringja í síma 823-3324 til að fá upplýsingar. Dregið verður á hverjum degi frá miðvikudegi á milli kl. 12-14 og hefur fólk tíma til hádegis daginn eftir til að tilkynna um bingó. 

"Salan á spjöldum hefur verið mjög góð og þessi nýjung hér á Ströndum hefur fengið góðar viðtökur," segir Ester. "Heimabingó er algeng skemmtun sumstaðar á landinu, t.d. á Siglufirði. Þar var spilað löngu fyrir daga internetsins, tölurnar voru bara hengdar upp í búðarglugga og allir fengu sér gönguferð til að kíkja á tölur dagsins." 

Áfram verður hægt að panta spjöld í síma 823-3324, spjaldið kostar 500 kr.