22/12/2024

Byggðastofnun á brauðfótum

Aðsend grein: Kristinn H. Gunnarsson
Í vikunni kom fram í fréttum að Byggðastofnun er fjárhagslega aflvana. Eigið fé stofnunarinnar er komið niður fyrir tilskilin mörk og stjórnin ákvað, þegar það var ljóst, að hætta lánveitingum þar til úr hefur verið bætt. Ekki er hægt að segja að þetta komi á óvart. Eigið fé Byggðastofnunar hefur farið lækkandi síðustu ár og um síðustu áramót var fyrirsjáanlegt að svona myndi fara á árinu ef ekkert yrði gert. Mér kemur hins vegar verulega á óvart aðgerðarleysi iðnaðarráðherra og ríkisstjórnarinnar, einmitt í ljósi þess sem vitað var.

Annað hvort þarf að leggja stofnuninni til fé eða létta af henni skuldum. Hvorugt var lagt til við gerð fjárlagafrumvarpsins, sem nú er á lokastigi á Alþingi. Engar tillögur hafa komið frá ríkisstjórninni fyrir 2. umræðu fjárlagafrumvarpsins. Þetta er algerlega óásættanlegt, á venjulegri íslensku heitir þetta að láta reka á reiðanum og það er helst gert þegar mönnum er sama.

Það finnst mér eiginlega verst í málinu, að málið hafi þann svip. Óleyst erindi bíða og má nefna Bíldudal sem dæmi um stað, þar sem fólk líður sárlega fyrir sleifarlagið.

Skyndilega skýtur upp kollinum skýrsla um Byggðastofnun sem gerð var fyrir iðnaðarráðuneytið í vor. Hún hefur farið afar lágt af einhverjum ástæðum og mér var ókunnugt um að hún væri til.

Vissulega getur það komið til greina að gera breytingar á stoðkerfi atvinnulífsins og byggðaþróunar sem ríkið heldur úti með Byggðastofnun, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og atvinnuþróunarfélögunum. En þá á að taka stoðkerfið til umræðu og vinna skynsamlegar tillögur um breytingar á því og hafa þær tilbúnar í tíma.

Það nær ekki nokkurri átt að kasta fram skýrslunni þegar allt er komið í hönk og vera með loðnar yfirlýsingar um stuðning við stofnunina eins og hún er og enn loðnari svör um hver skuli stefna. Ég sé ekki neina skynsemi í því að umbylta kerfinu í þeirri kastþröng sem hefur orðið til vegna þess að Byggðastofnun hefur lokað fyrir frekari lánveitingar.

Það verður að efla fjárhag stofnunarinnar núna strax með afgreiðslu fjárlaga og gefa svo tíma til að huga að breytingum, en þá verða menn líka að vita hver stefnan á að vera varðandi atvinnuuppbyggingu um landið allt.

En aðeins að skýrslunni sem fyrirtækið Stjórnhættir ehf gerði fyrir iðnaðarráðuneytið. Þar í er margt ágætt, en líka ýmislegt verra og tónninn í garð stofnunarinnar er fullneikvæður. Sérstaklega sér skýrsluhöfundur ástæðu til að hnýta í stjórnmálamenn, sem sitja í stjórninni og telur það ýta undir grunsemdir og ásakanir um að pólitísk sjónarmið ráði ákvörðun í einstökum málum fremur en fagleg. Bendir hann á að útlánatöp á síðustu 10 árum hafi verið um 23%.

Ég sakna þess að skýrsluhöfundur nefnir það ekki, að síðustu 5 ár hefur Byggðastofnun verið undir beinni stjórn ráðherra, sem skipar nú alla stjórn stofnunarinnar. Áður var stofnunin sjálfstæð og stjórnin kosin á Alþingi. Það hefði verið eðlilegt að skoða hvort þetta fyrirkomulag hefði reynst betra en það fyrra. Til dæmis að athuga hvort pólitísk áhrif af ákvörðunum hafi aukist eða minnkað og hver beinn eða óbeinn þáttur ráðherra hefur verið.

Í öðru lagi hefði verið eðlilegt að bera saman sjóðina tvö á atvinnumálasviðinu, Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og Byggðastofnun. Sami ráðherra skipar stjórnir beggja sjóðanna, báðir sjóðirnar lána fé til atvinnuuppbyggingar, báðir kaupa kaupa hlutafé og báðir veita styrki.

Í stjórn Nýsköpunarsjóðs eru skipaðir menn að tilnefningu aðila vinnumarkaðarins, en hann er engu að síður ekki laus við stjórnmálamenn. Þögnin um þá staðreynd er athyglisverð.

Afskriftir Nýsköpunarsjóðs af aðalstarfsemi sinni er miklu meiri en hjá Byggðastofnun. Samkvæmt ársreikningi 2004 er í afskriftarsjóði um 42% af fjárfestingareignum sjóðsins, en afskriftir Byggðastofnunar eru 23% af útlánum. Það er þagað um þetta.

Tap af rekstri Byggðastofnunar er sagt mikið, en tap af rekstri Nýsköpunarsjóðs síðustu 5 árin, 2000 – 2004, er samtals um 2,9 milljarðar króna á verðlagi hvers árs. Það er þagað um þetta.

Dregið er fram að Byggðastofnun hafi veitt 28 milljónir króna í styrki árið 2003 og 57 milljónir króna á síðasta ári. Nýsköpunarsjóður hefur veitt í styrki um 700 milljónir króna á 7 árum, 1998-2004. Það er þagað um þessa staðreynd.

Nýsköpunarsjóður var kominn í þrot eins og Byggðastofnun, en bara miklu fyrr. Sjóðurinn fær af sölu Símans 2,5 milljarð króna til þess styrkja eigið fé sjóðsins. Það er líka þagað um þetta.

Meðan ekki er tekinn út árangur af starfi Nýsköpunarsjóðs og hann borinn saman við starfsemi Byggðastofnunar vantar of mikið inn í myndina til þess að sanngjarnt mat á Byggðastofnun fáist og trúverðug niðurstaða á þessu stoðkerfi sem ríkið stendur að. Þetta eru réttnefnd vinnubrögð á brauðfótum.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins
www.kristinn.is