13/09/2024

Ályktað um lögreglumál

Í fundargerð frá fundi hreppsnefndar Hólmavíkurhrepps 8. nóvember sem nú hefur komið fram í dagsljósið í ritinu Fréttirnar til fólksins kemur fram að hreppsnefnd ályktaði þá um nýskipan lögreglumála á landinu. Samþykkt var formlega að senda ályktunina til dómsmálaráðherra, þingmanna kjördæmisins og formanni nefndar um nýskipan lögreglumála. Þar mótmælir hreppsnefnd hugmyndum um færslu á stjórn löggæslu frá Hólmavík til Borgarness. Þó nokkuð sé um liðið birtum við ályktunina í heilu lagi hér að neðan, svo íbúar svæðsins og aðrir sem áhuga hafa fái líka smá innsýn í hvað sveitarstjórnarmenn á svæðinu eru að hugsa og starfa:


 "Hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps lýsir yfir þungum áhyggjum vegna frétta af fyrirhuguðum breytingum á skipan lögreglumála í landinu. M.a. heyrast áform um að stjórn löggæslu fari frá Hólmavík í Borgarnes. Hreppsnefnd telur að stjórn löggæslu sé betur komin heima í héraði en í 200-300 km fjarlægð frá íbúum sveitarfélagsins. Því leggur hreppsnefnd til að lögreglustjóri verði áfram staðsettur á Hólmavík. Hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps telur að yfirvöld eigi að beita getu sinni til þess að færa verkefni til opinberra embætta á landsbyggðinni, til þess að efla þau og styrkja, í stað þess að taka af þeim þessi fáu störf sem ríkið hefur á minni þéttbýlisstöðum úti á landi."