25/04/2024

Gamli Hilmir

Hilmir ST 1Grein eftir Jón E. Alfreðsson
Í þessari grein er birt opinberlega afrit af bréfi undirrituðu af Jóni E. Alfreðssyni fyrir hönd félagsins Mumma, félags áhugamanna um varðveislu Hilmis, sem sent er sveitarstjóra Strandabyggðar vegna málefna Hilmis ST-1. Bréfið er dagsett þann 16. desember og er svohljóðandi: „Ég hef móttekið bréf þitt dagsett 15. þessa mánaðar varðandi mb. Hilmir ST-1. Ég ítreka enn einu sinni að ég tel það slys varðandi atvinnusögu Hólmavíkur að rífa þennan bát, en saga hans er samofin útgerðarsögu þorpsins í meir en fimmtíu ár.“

„Hilmir kom til Hólmavíkur á sjómannadaginn, lýðveldisárið 1944, og voru þá liðin 2 ár frá smíði hans. Á honum voru stundaðar  fleiri tegundir veiðskapar næstu hálfa öldina en almennt gerðist. Má þar nefna, handfæraveiðar, línuveiðar, en þá voru  allt að 10 manns í vinnu hjá útgerðinni, hringnótarveiðar á Norðurlandssíld, með 9-10 manns í áhöfn, síldveiðar í reknet, smásíldarveiðar til beitu í landnót, dragnótarveiðar, hörpudisksveiðar, smokkfisksveiðar til beitu ef, ef hann gaf sig, einstaka hákarlaveiðitúrar og síðast en ekki síst rækjuveiðar, bæði innfjarða og úthafsveiðar. Síðasti róður Hilmis var í apríl 1995.

Ég tel því að sveitarfélagið hefði átt að taka mark á tillögu Ingibjargar Gestsdóttur, forstöðumanns Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna, sem hún setti fram í bréfi til Strandabyggðar 23. júlí síðastliðinn: „Ef leggja þarf í kostnað við að fjarlægja bátinn af núverandi stað til að farga honum, væri hægt að nota það fé til að gera bátinn þannig úr garði að hægt væri að ganga um hann og skoða þar sem hann er. Það þyrfti þá að taka allt ofan af honum, loka opinu niður, skrapa hann og mála. Setja mætti stiga við hann þannig að auðveldara væri að komast upp í hann. Báturinn stendur skakkur og í bleytu og það mætti rétta hann af og setja alveg á þurrt. Trúlega yrði sá kostnaður sem af þessu hlytist þó eitthvað meiri en við förgun hans, en það ætti þó ekki að muna neinu stóru. Varðveislugildi Hilmis er bundið við Hólmavík og sögu innfjarðarækjuveiða í Húnaflóa. Því væri það sveitarfélaginu kannski til heilla að leggja út í þann kostnað sem því fylgdi að laga bátinn þar sem hann stendur.“

Við sem stóðum að hugmyndum um varðveislu bátsins höfum ekki staðið okkur sem skyldi, meðal annars vegna þess að hluti af aðal hvatamönnunum hafa fyrir löngu flutt burtu eða eru látnir.

Að lokum vil ég, samkvæmt beiðni, lýsa því yfir að við sem vorum forráðamenn “Mumma, félags um varðveislu Hilmis” munum ekki gera neina skaðabótakröfu vegna væntanlegra rifa bátsins.

Virðingarfyllst,

f.h. Mumma, félags áhugamanna um varðveislu Hilmis

Jón E. Alfreðsson“