22/12/2024

Bundið slitlag á Drangsnesveg

Vinnuflokkur frá Borgarverki er nú í gær og í dag að leggja fyrra lagið af bundnu slitlagi á Drangsnesveg um Selströnd sem verktakar frá KNH hafa unnið að í sumar, milli Kleifa á Selströnd og Strandavegar um Bjarnarfjarðarháls. Reikna má með að seinna lagið verði lagt fyrir 1. september næstkomandi en þá eiga verktakarnir að skila verkinu. Eftir að þessu verkefni lýkur verður enn eftir vegagerð á 6,5 km kafla á Strandavegi milli Hólmavíkur og Drangsness, áður en bundið slitlag verður alla leið milli þessara þéttbýlisstaða á Ströndum.

Sá vegarspotti, milli vegamóta í Staðardal og vegamóta yfir Bjarnarfjarðarháls, var eitt af þeim ellefu verkefnum í samgöngumálum sem ákveðið að setja í flýtimeðferð og voru hugsuð sem mótvægisaðgerð  vegna niðurskurðar í þorskveiðum. Í tilkynningu kom fram að ljúka ætti "að mestu við vegagerð með bundnu slitlagi milli Drangsness og Hólmavíkur á árinu 2009", en áður hafði verið gert ráð fyrir verklokum í fyrsta lagi árið 2011 í samgönguáætlun sem samþykkt var á síðasta þingi.

Þessi vegabót verður þá um það bil áratug á eftir sambærilegum samgöngubótum milli nálægra þéttbýlisstaða annars staðar á Vestfjörðum. Því væri ekki nema sjálfsagt að samgönguyfirvöld skoði vandlega hvort ekki er mögulegt að flýta verkefninu enn um eitt ár og reyna að ljúka því að mestu á árinu 2008, enda er ekki um langan veg að ræða.