22/12/2024

Bryggjuhátíðar undirbúningur að hefjast

Bryggjuhátíð séð frá GrímseyFyrsti fundur vegna Bryggjuhátíðar sem halda á Drangsnesi þann 19. júlí í sumar var haldinn nýverið. Leggst væntanleg Bryggjuhátíð vel í fólk og eru menn bjartsýnir á að veðrið verði mjög gott þennan dag. Verður dagskráin að mestu með hefðbundnu sniði. Að venju verða listsýningar og eru tilnefningar um listamann eða konu vel þegnar. Skemmtilegast þykir aðstandendum Bryggjuhátíðar að geta boðið upp á listamenn sem tengjast Ströndum á einhvern hátt.


Gömlu ljósmyndirnar verða að sjálfsögðu á sínum stað og er vel þegið að fá lánuð gömul albúm til að skanna inn myndir úr Kaldrananeshreppi þó ekki væri nema ábendingar um einhverja sem gætu lumað á gömlum ljósmyndum. Og þá er ekkert endilega verið tala um fyrir miðja síðustu öld, tíminn er svo fljótur að líða að gærdagurinn verður eftir ekki svo langan tíma talinn til gömlu daganna.