08/05/2024

Annasamt hjá lögreglu í liðinni viku

LögreglanAf fréttatilkynningu um helstu verkefni lögreglunnar á Vestfjörðum í síðustu viku má ráða að hún hefur verið annasöm í meira lagi, fyrst og fremst vegna veðurs og ófærðar. Á þriðjudeginum var tilkynnt um skíðaslys í Tungudal við Skutulsfjörð þar sem ungur drengur hafnaði á snjótroðara sem var á ferð um skíðasvæðið. Troðarinn mun hafa verið kyrrstæður er slysið varð en drengurinn hafnaði á belti troðarans og fékk alvarlega höfuðáverka. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Ísafirði og síðan með sjúkraflugvél til Reykjavíkur. Drengurinn mun vera á batavegi.

Níu umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í þessari viku. Á miðvikudeginum var bifreið ekið út af vegi við skíðasvæðið í Tungudal. Bifreiðin skemmdist lítið og engin slys urðu á fólki. Á föstudeginum urðu fjögur umferðaróhöpp. Dráttarvél með snjóruðningstönn valt skammt frá Hrafnseyri við Arnarfjörð og gat ökumaður vélarinnar kallað eftir aðstoð frá Mjólkárvirkjun og var hann fluttur þangað. Vegna veðurs og ófærðar var ekki hægt að komast landveg til Þingeyrar eða sjóleiðis til Bíldudals og var það mat læknis að ökumaðurinn yrði í Mjólká þar til aðstæður bötnuðu. Ökumaðurinn mun ekki hafa slasast alvarlega. Á svipuðum tíma fór bifreið út af veginum við Önundarfjörð. Ökumaður þar slapp ómeiddur og ekki er vitað um skemmdir á bifreiðinni. 

Þá fór bifreið út af veginum um Holtavörðuheiði á föstudaginn. Björgunarsveitarmenn aðstoðuðu ökumann, sem var óslasaður, við að koma bifreiðinni þannig fyrir að ekki skapaðist hætta fyrir aðra umferð. Sama dag fór flutningabifreið út af veginum skammt frá Hörgshlíð í Mjóafirði, þegar vegkantur gaf sig. Ökumann sakaði ekki, en bifreiðin mun vera á hjólunum og ekki er vitað um skemmdir á henni. Fyrirhugað er að ná bifreiðinni upp á veginn strax og veður leyfir. Þá fór bifreið út af vegi við Eyri í Seyðisfirði á sunnudagskvöldið. Engan sakaði en bifreiðin er enn utan vegar og er talin lítið skemmd.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum lenti bifreið í snjóflóði á Súðavíkurhlið um á fimmtudeginum. Ökumann bifreiðarinnar sakaði ekki. Lögregla og sjúkrabifreið fór á staðinn ásamt björgunarsveitarmönnum, en talsverð snjóflóðahætta var þarna og slæmt veður. Lögreglubifreið festist í snjóflóði á leið sinni frá vettvangi en eftir að hún hafði verið losuð var hlíðinni lokað fyrir umferð.

Í illviðriskaflanum á föstudag og laugardag, lokuðust flestir vegir á Vestfjörðum. Lögreglumenn, björgunarsveitarmenn og starfsmenn Vegagerðar sáu um lokanir og eftirlit með umferð vegna færðar og snjóflóðahættu. Á föstudaginn lenti olíubifreið í snjóflóði á Óshlíð. Ökumanninn sakaði ekki en hann fór fótgangandi að Óshólavita þar sem hann fékk far til byggða með öðrum vegfaranda. Bifreiðin stöðvaðist þversum á veginum en hún var óskemmd og var losuð er mokstur hófst daginn eftir.

Á föstudaginn kom í ljós að þrír menn voru lokaðir á milli snjóflóða í Kálfadal á Óshlíð. Báturinn Sædís frá Bolungarvík fór á staðinn og var náð í mennina með slöngubáti í fjöruna undan Kálfadal. Ekkert amaði að mönnunum en siglt var með þá til Bolungarvíkur.

Talsvert var um foktjón í veðri sem gekk yfir svæðið á föstudeginum. Þakplötur fuku af fjárhúsum í Hnífsdal og einnig fuku þakplötur af einbýlishúsi við Dalbraut í Hnífsdal. Hluti af húsþaki fauk af fjárhúsum í Neðri–Breiðadal í Önundarfirði. Hlaða á eyðibýlinu Raknadal við Patresksfjörð fauk á laugardeginum. Björgunarsveitarmenn frá Blakki á Patreksfirði fóru þar til aðstoðar, en brak úr hlöðunni dreifðist um nálæg tún. Á svipuðum tíma þurftu björgunarsveitarmenn frá Kópi á Bíldudal að hemja þar trefjaplastbát sem hafði fokið á ljósastaur og brotið staurinn.  

Á laugardeginum laust eftir hádegi var ökumaður handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna en upphaf málsins var að hann var stöðvaður fyrir of hraðan akstur í nágrenni við Ísafjörð. Aðfaranótt föstudags var tilkynnt um slagsmál í heimahúsi á Ísafirði. Þar slógust fjórir menn og voru taldir beita brotnum flöskum og öðru lauslegu í þessum slagsmálum. Er lögreglan kom á staðinn voru tveir horfnir af vettvangi en tveir voru fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar. Þeir voru báðir með áverka á höfði. Málið er rannsakað sem meiriháttar líkamsárás vegna þeirra vopna sem talið er að hafi verið notuð. Lögregla hefur rætt við alla sem málinu tengjast og hafa yfirheyrslur farið fram.