22/12/2024

Bryggjuhátíð á Drangsnesi á næsta súpufundi

Vikulegir súpufundir á Café Riis á Hólmavík halda áfram og á fimmtudaginn í þessari viku verður Bryggjuhátíð á Drangsnesi kynnt. Hefst fundurinn kl. 12:00 og stendur til 13:00 að venju og verður varpað út á netið í beinni, eins og síðustu vikur – tengill fyrir það er á www.strandir.saudfjarsetur.is/supufundir. Bryggjuhátíðin á Drangsnesi er fjölsótt hátíð, en hún var fyrst haldin 1996 og hefur verið árviss viðburður síðan. Hátíðin hefur verið að eflast og vaxa og síðasta ár fór fram Grímseyjarsund í tengslum við hana. Annars eru sjávarréttasmakk, veiðikeppni, Grímseyjarferðir, kvöldvaka, brekkusöngur  og dansleikur meðal fastra atriða. Strandamenn eru hvattir til að fjölmenna á súpufundinn.