22/12/2024

Börnum og unglingum á Ströndum hrósað

320-endurskinsvestiÁ fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar í vikunni var samþykkt einróma ályktun þar sem börnum og unglingum í sveitarfélaginu var hrósað: „Á síðustu misserum hafa börn og unglingar í Strandabyggð hvað eftir annað staðið sig afburða vel á opinberum vettvangi og verið sveitarfélaginu til sóma. Er skemmst að minnast þátttöku Félagsmiðstöðvarinnar Ozon í Söngkeppni Samfés þar sem unglingar í Strandabyggð urðu í 3. sæti með stórglæsilegu söngatriði. Eins má nefna sérstaklega sigur kvikmyndavalsins í Grunnskólanum á Hólmavík í myndbandakeppni 66° Norður í haust og glæsilega framkomu þeirra í sjónvarpsþáttunum Stundinni okkar og Landanum í vetur.“

Í ályktun sveitarstjórnar Strandabyggðar segir ennfremur:

„Börn og unglingar í Grunn- og Tónskólanum á Hólmavík taka einnig virkan þátt í leiksýningum, tónleikum og öðrum viðburðum og með sama hætti eru þau sjálfum sér og Ströndum til sóma hvar sem þau koma á ferðalögum á vegum sveitarfélagsins. Við fögnum því innilega að börn og unglingar í Strandabyggð setji mark sitt á mannlífið á Ströndum með jafn jákvæðum hætti og raun ber vitni.“