22/12/2024

Bið eftir tillögum Vestfjarðanefndar

Ekki er vitað hvaða tillögur snúa að StröndumSvæðisútvarp Vestfjarða sagði frá því í gær að skýrslu Vestfjarðanefndarinnar sem skipuð var 15. mars og koma á með tillögur um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum, verði ekki skilað til forsætisráðherra í dag eins og eins og gert var ráð fyrir þegar nefndin var skipuð. Halldór Árnason, skrifstofustjóri hjá forsætisráðuneytinu, og formaður nefndarinnar segir að enn sé verið að vinna að skýrslunni. Upplýsingar vanti og fleiri tillögur hafi komið en áætlað var sem þurfi að vinna betur úr.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og annar tveggja nefndarmanna frá Vestfjörðum, sagði í viðtali við Svæðisútvarpið að páskarnir hefðu sett strik í reikninginn og tillögurnar hafi verið mjög margar. Vandað sé mjög til vinnunnar og skýrslan verði tilbúin í næstu viku. Bjóst hann við að ýmsar tillögur kæmu strax til framkvæmda og eru Strandamenn vongóðir um að einhverjar þeirra snúi sérstaklega að atvinnulífi hér um slóðir.