22/07/2024

Batnandi vegir í Bæjarhreppi

Eins og vegfarendur um Djúpveg hafa eflaust tekið eftir þá hefur vegurinn um Bæjarhrepp frá Kjörseyri að Prestbakka tekið verulegum breytingum til batnaðar og er nú orðin vel keyrandi. Verktakafyrirtækið Fylling á Hólmavík framkvæmdi verkið og hafa þeir bræður Þórður, Aðalbjörn og Björn Sverrissynir verið óþreytandi við framkvæmdir sama hvað hefur á dunið. Lagfæringar við veginn hófust í janúar síðastliðinn og hafa staðið yfir síðan þá.

Vegurinn var breikkaður og aðrar breytingar gerðar á honum þar sem þurfti. Kröpp beygja var lagfærð við Bæjaröxl, vegurinn var hækkaður töluvert við Hlaðhamar og fyrir neðan Kjörseyri og Ljótunnarstaðahallanum var breytt til batnaðar svo eitthvað sé nefnt. Nú hefur vegurinn verið lagður tvíbreiðu bundnu slitlagi og er allur frágangur á og við veginn hin besti og þeim til sóma sem að stóðu.

Því er ekki að neita að slík umsvif í litlu sveitafélagi sem Bæjarhreppur er setur skemmtilegan  svip á mannlífið og margar góðar sögurnar hafa svifið og verður eftirsjá af þeim Fyllingarmönnum þegar þeir hverfa á braut.

Þegar framkvæmdunum við veginn lauk þá tóku þeir bræður sig til og bjuggu til eitt stykki sparkvöll fyrir Barnaskólann á Borðeyri, bara svona til að trappa sig rólega niður áður en þeir færu alveg. Svo getur það verið spurning hvort reynandi væri að halda þeim í gíslingu,  og vita hvort vegurinn lagist þá ekki áfram út hreppinn.

580-fylling9 580-fylling8 580-fylling7 580-fylling6 580-fylling5 580-fylling4 580-fylling3 580-fylling2 580-fylling10 580-fylling1

Fyllingarmenn að störfum