23/12/2024

Baráttudagur kvenna var í Djúpavík

150-kvennad_arnhrGóð þátttaka var hjá konum í Árneshreppi á Ströndum á Kvennafrídaginn en flestar þeirra lögðu niður vinnu klukkan 14:08 og hittust við Finnbogastaðaskóla og héldu þaðan til Djúpavíkur. Ferðin gekk sæmilega þar til þær komu að svokölluðu Skarðargili í Reykjarfirði en þar neitaði einn fararskjótinn að fara lengra. Ekki kom til greina hjá konunum að kalla út “karla-björgunarsveit“ heldur selfluttu þær farþegana á leiðarenda og höfðu á orði að aldrei væri of mikið á sig lagt fyrir góðan málstað og hófu kvennagöngu hluta leiðarinnar til Djúpavíkur.

Á Hótel Djúpavík tók staðahaldarinn Ásbjörn Þorgilsson á móti hópnum en konurnar horfðu þar saman á beina sjónvarpsútsendingu frá útifundinum á Ingólfstorgi í Reykjavík og þær fylgdust með baráttunni sem býr í krafti kvenna á meðan þær nutu frábærra veitinga staðarhaldarans. Eftir velheppnaða kvennaferð til Djúpavíkur þar sem konurnar áttu skemmtilega stund saman hélt hópurinn til baka norður í hrepp og sumar konurnar komu að körlum sínum sveittum við matarundirbúning. Veðrið í Árneshreppi gekk á með éljum, en konurnar létu það ekki á sig fá þó það væri ekki jafn gott og í höfuðborginni og víðar um landið.

580-kvennad_arnhr01 580-kvennad_arnhr02

Bilaður farskjóti varð tilefni til kvennagöngu á hluta leiðarinnar til Djúpavíkur