22/12/2024

Uppbyggingarsjóður auglýsir eftir umsóknum

580-solaruppras3

Nú er í annað skipti auglýst eftir styrkumsóknum til Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða sem rekinn er innan vébanda sóknaráætlunar landshlutans og er í umsjón Fjórðungssambands Vestfirðinga. Uppbyggingarsjóður veitir styrki til menningarverkefna, atvinnuþróunar- og nýsköpunar, auk stofn- og rekstrarstyrkja til menningarstofnanna. Uppbyggingarsjóður varð til með samningi ríkis og Fjórðungssambands Vestfirðinga um Sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019 sem undirritaður var 10. febrúar 2015. Umsóknarfrestur er til og með föstudeginum 22. janúar 2016.

Veittir verða stofn- og rekstrarstyrkir til menningarstofnana, verkefnastyrkir til menningarmála og verkefnastyrkir til atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna. Hægt er að sækja um styrki til allt að þriggja ára, en vakin athygli á að framkvæmda- og fjárhagsáætlanir þurfa að miðast við þann tíma sem sótt er um styrk til. Skila verður umsóknum á þar til gerðu umsóknareyðublaði sem er að finna ásamt frekari upplýsingum og úthlutunarrreglum á vef Fjórðungssambands Vestfirðinga – www.vestfirdir.is/Uppbyggingarsjodur.

Samþykkt hefur verið að árið 2016 verði litið sérstaklega til verkefna sem uppfylla eitt eða fleiri eftirfarandi skilyrða:

a)  Verkefni sem efla nýsköpun og atvinnuþróun á svæðinu og stuðla að stofnun nýrra fyrirtækja sem byggja á nýsköpun, einnig vöru- og gæðaþróun í starfandi fyrirtækjum
b)  Verkefni sem stuðla að nýsköpun, fjölbreytni og aukinni fagmennsku í menningarstarfi
c)  Verkefni sem fjölga eða styðja við atvinnutækifæri á sviði lista og menningar
d)  Verkefni sem efla samstarf á sviði menningarmála á svæðinu
e)  Verkefni sem styðja við uppbyggingu og eflingu menningartengdrar ferðaþjónustu
f)  Verkefni sem skapa viðskiptatækifæri og verðmæti á sviði skapandi greina
g)  Verkefni sem skapa störf fyrir háskólamenntaðar konur eða stuðla að fjölbreyttari atvinnutækifærum fyrir ungt fólk á svæðinu
h)  Atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni sem auka útflutningstekjur eða eru gjaldeyrisskapandi
i)   Atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefni á sviði líftækni
j)   Verkefni sem byggja á samstarfi fyrirtækja og rannsóknaraðila, þ.m.t. háskólastofnana

Hægt er að hafa samband og senda umsóknir rafrænt á netfangið uppbygging@vestfirdir.is. Starfsmenn Fjórðungssambands Vestfirðinga veita ráðgjöf við gerð umsókna í Uppbyggingarsjóð og sama gildir um starfsmenn Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.