29/04/2024

Auðlindin

Aðsend grein: Karl V. Matthíasson
Nú hefur umræðan um auðlindir Íslands komið vel upp á yfirborðið á ný.  Hver átti Ísland áður en menn námu hér land? Og hver átti Ísland eftir að menn komu hingað? Voru það höfðingjarnir einir? Var eitthvað til sem hét almenningur, var eitthvað til sem hét þjóðareign eða þjóðlendur? Já hver átti allt góssið, þetta dýrðarinnar land, fiskimiðin. o.s.frv. 

Nú er barátta hér á landi í gangi um það hvort setja eigi í stjórnarskrá að íslenska þjóðin eigi Ísland með gögnum og gæðum ef svo má að orði komast.  Í mínum huga er það auðvitað borðleggjandi að íslenska þjóðin á auðlindir landsins og hafsins í kring um það. Fyrir nokkrum árum hefði ekki einum einasta manni dottið það í hug að pæla í þessu.  Því  hugsunin um sameign okkar á þessum auðlindum hefur verið gróin inn í vitund þjóðarinnar.

En nú er þetta orðið mál málanna. Hver á auðlindir landsins, landgrunnsins og þess sem þar er undir og fyrir ofan?

Græðgisvæðingin

Af hverju er verið að pæla í þessu núna? Að minni hyggju er það út af græðgisvæðingunni sem hafið hefur innreið sína í landið. Sumir menn hafa nú öðlast þá sýn að einstaklingar eigi að eiga auðlindir lands og sjávar. Og mörgum er það keppikefli að eignast meira og meira því þeim finnst virðing sín aukast og aukast við það að teljast sem mestir eignamenn.

Já vatnslindir, þjóðlendur, fiskimið og allt skal selt í hugum sumra. Sjúkrahús, skólar, hafnir, vegir, flugvellir og svo framvegis, allt skal falt og mikið hefur verið selt undanfarið.

Nú verðum við að staldra við og átta okkur á því að við erum ekki eilíf og að aðrir eiga að taka við eins og við höfum tekið við af þeim sem á undan okkur komu.

Hlutverk stjórnmálanna er að leiða á ný þá hugsun inn í samfélagið að við sem byggjum Ísland, íslenska þjóðin er eigandi auðlinda lands og sjávar og að við megum ekki gefa það eða selja úr hendi okkar, því við erum ábyrg gagnvart þeim sem það erfa og síðar koma.  

Karl V. Matthíasson skipar 2. sætið á lista Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.