19/04/2024

Það er ýmislegt að!

Aðsend grein: Gísli Einarsson
Vegna greinar sem hinn skeleggi og skemmtilegi sauðfjárbóndi og grenjaskytta, Guðbrandur Sverrisson, skrifaði fyrir fáum dögum á Strandavefinn, undir heitinu “Hvað er að?” vil ég leyfa mér að leggja fáein orð í belg. Guðbrandur gagnrýnir fréttaflutning Fréttastofu Sjónvarps og Kastljóssins af útrunnum matvælum sem Fjölskylduhjálp Íslands hafði í boði fyrir sína skjólstæðinga. Þar segir hann m.a.: “Það er meira en lítið að, þegar velmegunarfólk á ríkisfjölmiðli kemur askvaðandi í vandlætingu sinni …”.

Ég tek það fram að ég skrifa ekki hér sem talsmaður Fréttastofunnar eða Kastljóssins heldur aðeins fyrir mina hönd sem fávís fréttamaður og  einn af þessu “velmegunarfólki á ríkisfjölmiðli” sem um er rætt. Því þótt ég sé ekki nafngreindur í grein Guðbrands hlýt ég að falla undir þá skilgreiningu þar sem ég hóf þessa umræðu og hlýt þar með að bera mesta ábyrgð. Ég er þó ekki tilbúinn til að samþykkja það strax að ég hafi hungursneyð á samviskunni eftir þennan fréttaflutning eins og Guðbrandur ýjar að.

Í grein sinni segir Guðbrandur orðrétt: “Aðalega var um svokallaða þurrvöru að ræða sem komin var á þau mörk að teljast ”útrunnin”. Vara sem telst útrunnin verður það oftast klukkan tólf á miðnætti. Þangað til er hún í fullu gildi og heilnæm, eftir tólf er hún stórhættuleg, jafnvel banvæn, það er einkennilegt hvað sumir hlutir virðast gerast hratt.”

Ef Guðbrandur hefur hlustað og vandlega og horft ætti honum að vera ljóst að vörurnar sem þarna var rætt um voru ekki aðeins komnar á þau mörk að teljast útrunnar: “Það yngsta sem þarna var í boði rann út fyrir þremur mánuðum og það elsta fyrir þremur árum. Þannig að ekki var um það að ræða að þetta hefði gerst rétt fyrir miðnætti. Vissulega getur verið í góðu lagi með þurrvörur lengi eftir að þær renna út á síðasta söludegi. Þegar hinsvegar eru liðnir margir mánuðir eða jafnvel ár hefur varan undantekningalítið tapað næringagildi og í sumum tilfellum getur hún beinlínis verið varasöm. Ég nasaði sjálfur upp úr pokunum og pökkunum sem þarna var um rætt og ég fullyrði að jafnvel refirnir sem Guðbrandur egnir fyrir með útrunnu kindakjöti hefðu fúlsað við því flestu.

Það sem mér þykir alvarlegast í þessu máli er sú lítilsvirðing sem skjólstæðingum Fjölskylduhjálparinnar er sýnd. Það var beinilínis verið að segja því að þótt ekki væri hægt að selja vörurnar venjulegu fólki þá væri þetta fullgott handa því. Ég reikna með að það sé nógu erfitt fyrir skjólstæðinga Fjölskylduhjálparinnar að stíga þau skref að leita sér aðstoðar þótt þeir þurfi ekki ofan í kaupið að fara heim til svangra barna sinna með ónýtan mat. Þetta fólk er heldur ekki í aðstöðu til að kvarta þótt ein þeirra hafi sem betur fer sýnt það hugrekki að láta vita af þessu.

Þá má geta þess að með því að keyra útrunnum matvælum í Fjölskylduhjálpina gátu fyrirtæki sparað sér fé í urðunargjaldi sem er um 11 kr. á kílóið hjá Sorpu. Þá þarf varla að ítreka að þarna var um skýlaust lögbrot að ræða. Því spyr ég Guðbrand: Á það að viðgangast að lög séu brotin og fátækum sýnd sú lítilsvirðing sem hér segir í nafni “góðgerðarstarfsemi”.

Guðbrandur nefnir hagnað stórfyrirtækja og ég tek undir að þær tölur sem stundum eru nefndar varðandi hagnað fyrirtækjanna og laun forstjóranna eru ofar skilningi venjulegra sveitamanna eins og okkar. Þess heldur gæti maður haldið að þessi fyrirtæki gætu látið af hendi eitthvað annað en ónýt matvæli og slá sér upp á þeim forsendum að þau séu að styðja góðan málstað.

Þegar til mín er leitað til að leggja eitthvað lítilræði af mörkum til söfnunar til handa bágstöddu fólki, hvort sem er innlendu eða erlendu, þá hvarflar ekki að mér að senda þeim jógúrtdósina sem rann út á síðasta söludegi fyrir tveim dögum eða annað sem ég hef ekki lyst á að neita sjálfur. Er ég þó ekki með 30 milljónir í mánaðarlaun þótt ég sé “velmegunarfólk á ríkisfjölmiðli”.

Með góðri kveðju til Guðbrands á Bassastöðum og annarra Strandamanna.

Gísli Einarsson
fréttamaður