26/04/2024

Áttu mynd úr Sævangi?

Félagsheimilið Sævangur við Steingrímsfjörð verður 50 ára í sumar, en það var vígt sunnudaginn 14. júlí árið 1957 eftir að hafa verið í byggingu í um þrjú ár. Sauðfjársetrið í Sævangi hyggst halda upp á afmælisdaginn í sumar með því að opna litla sérsýningu um húsið og sögu þess. Arnar Jónsson, framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins, segir að sýningin eigi að byggjast að mestu upp á myndefni; ljósmyndum af húsinu í byggingu, af leiksýningum, spilakvöldum, héraðsmótum, fundum, þorrablótum og öðrum samkomum og atburðum sem gerst hafa í og við húsið. Í því skyni auglýsir Sauðfjársetrið nú eftir slíku myndefni frá öllum gestum Sævangs í gegnum tíðina.

„Þessi sýning er fyrst og fremst hugsuð til að heiðra sögu hússins og safna um leið saman efni um sögu þess, sem ég held að sé merkilegri en margan grunar. Það eru ótal margir sem eiga góðar minningar frá skemmtunum í Sævangi og ég efast ekki um að fullt af fólki á margar myndir úr húsinu. Ég hugsa að það séu líka einhverjir sem hafa hitt lífsförunautinn á dansleik í Sævangi – það væri sérstaklega gaman að heyra frá því fólki og öðrum sem hafa skemmtilegar sögur að segja,“ sagði Arnar í spjalli við strandir.saudfjarsetur.is.

Fólk sem lumar á ljósmyndum, lifandi kvikmyndum eða rituðum heimildum tengdum Sævangi eða vill koma á framfæri skemmtisögum sem gerst hafa í húsinu er beðið um að hafa samband við Arnar S. Jónsson í netfangið saudfjarsetur@strandir.saudfjarsetur.is eða í síma 661-2009. Ekki er þörf á að gefa myndefnið, því allar myndir verða skannaðar og afhentar eigendum aftur ef þeir óska þess.