25/04/2024

Atburðir á Ströndum yfir páskana

Nóg verður að gerast á Ströndum um páskana og óhætt að segja að eitthvað verði í boði fyrir alla aldurshópa. Meðal þess sem verður að gerast næstu daga er pizzasala, skíðamót, dansleikir, guðsþjónusta og leiksýning. Fjörið hefst í raun strax annað kvöld, miðvikudagskvöldið 4. apríl, en þá geta menn byrjað að troða sig út af páskapizzum frá Café Riis. Hægt verður að panta pizzu og ná í hana á Café Riis milli kl 18:00 og 20:00. Á skírdag verður skíðamót Kaupþings haldið á Ströndum og á föstudaginn langa geta menn skellt sér alla leið til Bolungarvíkur til að berja augum sýningu Leikfélags Hólmavíkur, Þið munið hann Jörund, en leikritið verður sýnt í Víkurbæ og hefst kl. 20:00.

Á miðnætti að kvöldi lengsta föstudags ársins verður barinn á Café Riis opnaður upp á gátt og trúbadorinn Bjarni Ómar Haraldsson mun slá á gígju og þenja raddbönd til kl. 4:00 um nóttina. Aðgangseyrir að Café Riis á föstudagskvöldinu er kr. 1.000.- og aldurstakmark er 18 ár. Laugardagskvöldið 7. apríl verður síðan haldið ball í Bragganum, en þar spilar hljómsveitin Bermuda fram á rauða nótt. Þeir sem ætla að fara í Braggann þetta kvöld þurfa að vera átján ára til að komast inn. Morguninn eftir, á sjálfan páskadag,  verður hátíðarguðsþjónusta í Hólmavíkurkirkju og hefst hún kl. 11:00. Seinna á sunnudeginum verður hin frábæra sýning Leikfélags Hólmavíkur, Þið munið hann Jörund, sýnd í Félagsheimilinu á Hólmavík. Sýningin hefst kl. 20:30 og aðgangseyrir er kr. 2.000.- fyrir 6 ára og eldri.

Það ætti því enginn að þurfa að láta sér leiðast á Ströndum um páskana.