02/05/2024

Áratugur hátækninnar

Aðsend grein: Gunnar Sigurðsson og Jón Marz Eiríksson
Undanfarin ár og áratugi hafa forsendur í iðnaði og atvinnulífi í heiminum breyst gríðarlega. Með aukinni alþjóðavæðingu eru samkeppnisviðmið ekki staðbundin heldur miðast við það sem best gerist í heiminum. Áhrifin eru tvíþætt; atvinnurekendur flytja störf í iðnaði og þróun þangað sem hagkvæmast er og þær vörur sem framleiddar eru verða að standast alþjóðlegan samanburð. Þróun í þessa átt mun halda áfram næstu ár og því er mikilvægt að aðlagast breyttum aðstæðum til að verða ekki undir í samkeppninni. Möguleikar Íslands liggja fyrst og fremst í vel menntuðu starfsfólki og að skapa umhverfi sem styður við nýsköpun og þróun.

Markmið með tillögum Samfylkingarinnar til stuðnings hátækniiðnaði og nýsköpun er meðal annars að á næstu tíu árum verði til 5000 ný störf í hátækniiðnaði, fjöldi íslenskra sprotafyrirtækja fimmfaldist og útflutningsverðmæti hátæknifyrirtækja tífaldist. Þetta eru háleit markmið en það sem skiptir mestu máli er að búið er að taka stefnuna: Stórauka skal hlut hátækni í íslensku atvinnulífi á næstu árum.

Á sprotaþingi Samtaka iðnaðarins sem haldið var í vetur hlutu tillögurnar verðlaun sem þrjár bestu tillögurnar. Ástæðan fyrir þessum góðu viðtökum er að tillögurnar eru hvetjandi fyrir fjárfesta og atvinnulíf til að stuðla að nýsköpun. Ríkisframlög eru hentug á fyrstu stigum þróunar en á seinni stigum er nauðsynlegt að fjármagn frá fjárfestum komi til. Á Íslandi í dag er vaxtastig hátt sem þýðir að hægt er að fá góða ávöxtun með lítilli áhættu t.d. með innláni í banka. Áhættusöm fjárfesting í sprotafyrirtæki er því ekki sérlega vænlegur kostur, jafnvel þó að möguleg ávöxtun til langs tíma sé mikil. Afleiðingin er sú að sprotafyrirtæki eiga erfitt uppdráttar.

 Helstu atriði í tillögum Samfylkingarinnar eru:

1. Fjórfalda framlag í Rannsóknarsjóð og Tækniþróunarsjóð á næstu 4 árum. 
2. Breyta lögum um tekju- og eignaskatt til að heimila skattaívilnanir sem örva fjárfestingar einstaklinga í sprotafyrirtækjum.
3. Heimila endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar að ákveðnu hámarki.

Aukin framlög í Rannsóknarsjóð og Tækniþróunarsjóð skila sér í aukinni grósku í rannsóknar- og þróunarvinnu sem síðar getur leitt af sér sprotafyrirtæki. Sérstaklega mikilvægt er að ungir vísindamenn og tæknimenntað fólk fái tækifæri til að stunda rannsóknir snemma á ferlinum því þannig opnast sýn þess á þá möguleika sem fyrir hendi eru.

Með skattaívilnunum er hvatt til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum og þannig má leysa fjármögnunarvandann sem getið er að ofan. Aðalatriðið er að fjárfestum er eftirlátið að velja hvaða fyrirtæki fjárfest er í og þannig komist hjá að úthlutun fjármagns sé á höndum ríkisstofnunar. Með öðrum orðum er hvatt til að markaðsöflin virki eðlilega fyrir sprotafyrirtæki.

Með endurgreiðslu rannsóknar og þróunarkostnaðar eru starfandi fyrirtæki hvött til að stunda nýsköpun og þróun. Stór hluti rannsóknar og þróunarkostnaðar er vegna launa, endurgreiðsluna mætti því til dæmis útfæra með skattaafslætti á laun sem greidd eru fyrir þróunarvinnu.

Hátækni er óháð landamærum og staðsetningu og því eiga þær hugmyndir sem hér eru raktar ekki síður vel við í Norðvesturkjördæmi en Kísildalnum í Kaliforníu. Tillögum Samfylkingarinnar er ætlað að mynda hagstætt og hvetjandi umhverfi fyrir sprotafyrirtæki á Íslandi. Þann 12. maí næstkomandi hafa kjósendur tækifæri til að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs sem byggir á þekkingu og tækni og hefja þannig áratug hátækninnar á Íslandi.

Gunnar Sigurðsson, verkfræðinemi.
Jón Marz Eiríksson, fyrrverandi formaður NFNV.