05/10/2024

Opið bréf til íbúa Hólmavíkur um hugsanlega hitaveitu frá Hveravík

300-holmavik5Aðsend grein eftir Magnús H. Magnússon og Gunnar Jóhannsson
Þann 6. apríl sl. áttum við undirritaðir fund með hreppsnefndarmönnum og sveitarstjóra Strandabyggðar um hugsanlega hitaveitu á Hólmavík, með heitu vatni frá Hveravík. Á fundinum lögðum við fram skýrslu sem verkfræðistofan Fjarhitun hafði gert fyrir Hveraorku ehf, um kostnað og arðsemi þess að leggja hitaveitu frá Hveravík og jafnframt að leggja dreifikerfi um Hólmavík.

Kannaðar voru þrjár leiðir og í stuttu máli kemst Fjarhitun að þeirri niðurstöðu að tvær þeirra séu hagkvæmar. Þær tvær tillögur Fjarhitunar sem taldar eru hagkvæmar ganga út á að leggja leiðslu frá Hveravík að Sandnesi og þar þvert yfir Steingrímsfjörð (á svipuðum stað og gamli sæstrengurinn liggur) og þaðan til Hólmavíkur. Það skal ítrekað að Fjarhitun telur að þrátt fyrir að þessi vegalengd sé valin, sé þetta verkefni hagkvæmt. Þær hugmyndir sem við kynntum fyrir hreppsnefnd og sveitarstjóra gengu út á að stytta þessa vegalengd og taka út margvíslegan kostnað sem við teljum að tilheyri ekki hagkvæmnisútreikningum á hitaveitu.

Töldum við að horfa mætti til reynslu Drangsnesinga í þessum efnum og þess góða árangurs sem þar hefur náðst í hitaveitumálum. Þegar við höfum skorið það niður sem við töldum að skaðlausu þyrfti ekki að vera í þessum útreikningum, þá var ekki vafi í okkar huga að hægt væri að lækka húshitunarkostnað á Hólmavík um 20-30% +.

Jafnframt lýstum við þeirri skoðun okkar að með hliðsjón af boðuðum sameiningum sveitarfélaga væri vert að velta fyrir sér hvernig eignarhald á slíku fyrirtæki ætti að vera. Að okkar mati væri best að eignarhaldið væri í höndum íbúa á Hólmavík, þannig að þeir nytu ávinningsins, en hann hyrfi ekki þegar til stórra sameininga sveitarfélaga kæmi.

Það kom okkur því mjög á óvart að lesa svör við erindi sem við bárum upp við hreppsnefnd Strandabyggðar, í Fréttablaðinu í síðustu viku. Þar var hugmyndum um hitaveitu hafnað og helstu rökin voru að kostnaður við að koma lögninni um Hólmavík væri of mikill, þar sem of lítið væri af húsum við hverja götu, en of mikið væri um klappir og grýttan jarðveg. Ekki síður kom það okkur á óvart að helstu álitsgjafar sveitarstjórans eru eingöngu tveir æðstu starfsmenn Orkubús Vestfjarða.

Það hlýtur öllum að vera ljóst að það er mikið hagsmunamál fyrir Orkubú Vestfjarða að halda áfram að selja raforku til húshitunar á Hólmavík, en að bera fyrir sig kostnaðarmat tveggja starfsmanna Orkubúsins getur varla talist hlutlaust mat. Það er svona svipað og að spyrja SÍMANN hvort það sé hagstætt að eiga viðskipti við símafyrirtækið NOVA.

Hveraorka ehf. óskaði eftir styrk hjá Orkusjóði til að kanna kostnaðinn við að leggja heitt vatn frá Hveravík til Hólmavíkur, en fékk synjun. Eigendum Hveraorku var sagt að hún byggðist m.a. á samtali við sveitarstjórann sem sagði að Hólmvíkingar væru ánægðir með núverandi fyrirkomulag. Hefði styrkurinn fengist gæti sveitarstjórnin myndað sér sína eigin skoðun á hitaveitu frá Hveravík.

Við trúum því ekki að Hólmvíkingar vilji almennt ekki kanna möguleika á að lækka húshitunarkostnað sinn um 20-30% og njóta auk þess allra þeirra lífsgæða og auknu möguleika í atvinnuuppbyggingu sem hitaveita býður upp á. Þá er óskiljanlegt að sveitarstjórnin sjái ekki þau atvinnuskapandi tækifæri sem felast í uppbyggingu hitaveitu í bæjarfélaginu og möguleikunum á fjölbreyttara atvinnulífi í kjölfarið. Og ekki síður yrði þetta mikill styrkur fyrir þá fjölmörgu ferðaþjónustuaðila sem lagt hafa í mikinn kostnað og mikla vinnu við uppbyggingu á margskonar þjónustu og afþreyingu fyrir ferðamenn sem koma á svæðið. Þar er á ferðinni  markaðssetning sem á sér enga líka á landsvísu.

Sjá má í fundargerð sveitarfélagsins, að ákvörðunin er byggð á áliti sem fulltrúar Orkubús Vestfjarða kynntu fyrir sveitarstjóra. Þar stendur: „Var málið rætt vítt og breytt en fram kom í máli þeirra að eftir að hafa skoðað dæmið taldi Orkubúið að ekki væri arðsamt að koma slíkri veitu á fót þar sem ljóst væri að kostnaðurinn fyrir neytandann yrði síst minni en hann nú er, en stefna þeirra er að taka þátt í svona framkvæmdum sé það hagstæðara fyrir neytandann.
Sagðist Kristján [Haraldsson, framkvæmdastjóri Orkubúsins] vera tilbúinn að skoða málið með sveitarstjórn en þá þyrfti að byrja á því að láta óháða verkfræðistofu fara yfir málið og skoða kostnað frá upphafi til enda.
Myndi Orkubúið greiða þá helmings þess kostnaðar og sveitarfélagið helming. Þá taldi Kristján að sá  kostnaður við að koma lögninni um Hólmavík væri mun meiri en fram kemur í skýrslunni, þar sem um er að ræða klappir og grýttan jarðveg sem og fá hús við hverja götu. Þá voru málefni Nauteyrar og Þiðriksvalla rædd lauslega og stefnt á að halda fund með landeigendum með m.a. hugsanlega virkjunarmöguleika í huga. Verða mál áfram skoðuð og haft samband við Ísor til að fá viðbótar upplýsingar um hugsanlega hitaveitu.“
   ? ? ? ? ? ?

Stefna Orkubús Vestfjarða hefur verið að orkuverð sé það sama allstaðar á Vestfjörðum, ef um sömu orkuflokka er að ræða. Verð á orku til húshitunar á Hólmavík kæmi því ekki til með að lækka á Hólmavík þótt þar tækist að koma á fót hagkvæmri hitaveitu, ef hún væri á vegum Orkubús Vestfjarða.

Drangsnesingar byggðu sjálfir sína hitaveitu fyrir tíu árum, þrátt fyrir „fá hús við hverja götu, klappir og grýttan jarðveg.“ Hitaveitan hefur nú borgað sig. Af hverju ætti annað að gilda á Hólmavík? Hitaveitan á Drangsnesi er mikil kjarabót fyrir Drangsnesinga. Orkubú Vestfjarða notar nú sömu rök  gegn hitaveitu á Hólmavík og  voru notuð gegn hitaveitu Drangsnesinga á sínum tíma.

Sveitarstjórnarkosningar eru 29. maí. Við teljum brýnt að íbúar Hólmavíkur ræði á málefnalegan hátt þann möguleika sem hitaveita á Hólmavík er og spyrji frambjóðendur um afstöðu þeirra til þessara mála. Sömuleiðis þurfa öll sveitarfélög framsýnan og drífandi sveitarstjóra sem hefur hagsmuni íbúanna að leiðarljósi og ekkert annað. Við trúum ekki öðru en að næsti sveitarstjóri vilji vera sá leiðtogi.

F.h. HVERAORKU ehf

Magnús H. Magnússon
Gunnar Jóhannsson