19/04/2024

Merkisdagur í samgöngumálum

Aðsend grein: Einar K. Guðfinnsson
Við skulum minnast síðast liðins föstudags, sem merkisáfanga í samgöngusögu okkar. Undirritun vegna vegaframkvæmdanna um Arnkötludal og Gautsdal hljóta að teljast einhver ánægjulegustu tíðindin í samgöngumálum á Vestfjörðum. Ekki síst fyrir Strandamenn. Undirritun Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra, fulltrúa Vegagerðar og verkkaupa á föstudaginn var má kannski kalla einskonar innsiglun þessa mikla framfara og gamla baráttumáls margra, ekki síst Strandamanna.

Sjálfur man ég þessa sögu afskaplega vel. Ýmsir vinir mínir á Ströndum fóru að tala um það við mig og fleiri að nauðsynlegt væri að fá veg um Arkötludal, yfir hálsinn og ofan í Gautsdal. Þetta hljómaði framúrstefnulega í fyrstu. Við vorum í basli við að koma brýnum verkefnum áfram og ný vegagerð á ókunnum slóðum var kannski ekki það sem efst var í huga manns á þeim tíma. Við þekktum vitaskuld veginn um Tunguheiðina (Tröllatunguheiði) en þótti á þeim tíma bjartsýni í þeirri hugmynd að leggja nýjan veg samsíða, sem yrði þjóðleiðin inn á þjóðveg 1.

Helstu rökin

En Strandamenn kunnu að flytja sitt mál. Þeir lögðu fram rökin í málinu. 40 kílómetra stytting. Að losna við torleiði og vonda vegi. Það myndi lækka kostnað við aðföng, fiskflutninga og ferðalög. Þeir bentu á möguleikana í nýjum atvinnugreinum, ferðaþjónustu og skyldum hlutum. Þá skipti öllu að búa við greiðar og stuttar leiðir. Svo skynjuðu menn möguleikana á samstarfi við nágrannana vestan við. Reykhólamenn, Saurbæinga og Dalamenn. Atvinnulífið gæti styrkst, samnýta mætti opinbera þjónustu og styðja hana með samvinnu þessara héraða.

Síðar bættust við fleiri rök. Aukinn þungaflutningur á Þjóðvegi 1 gerði það mikilvægt að losna við  hluta umferðarinnar. Með því að beina umferð til Vestfjarða af þjóðveginum og á Bröttubrekku, létti á umferðarþunganum og drægi úr slysahættu. Þarna voru hrein umferðaröryggisrök á ferðinni sem skipta vaxandi máli. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur enda gert umferðaröryggismálin á forgangsverkefni og þau vega því þungt við val á leiðum og gerð vega.

Arnkötludalur inn á Vegáætlun

Mér varð ljóst fyrir löngu að þessi vegagerð var gríðarlega þýðingarmikil og hreinn lykill fyrir norðanverða Vestfirði að betri samgöngum og lækkandi flutningskostnaði. Fyrir mig sem þáverandi formann Samgöngunefndar Alþingis skipti það miklu þegar þessi vegur kom í fyrsta skipti inn á Vegáætlun, sem annar möguleiki af tveimur. Ég vissi sem var að þessi vegagerð hefði yfirburði yfir aðra valkosti á þessari leið. Enda fór það svo að þegar kostirnir voru bornir saman, þá hafði Arnkötludalur/Gautsdalur betur. Málið var þá komið á beinu brautina.

Það má segja að eftir þetta hafi ekki verið til baka snúið. Nú var bara orðið spurning um tíma og þegar viðbótarfé fékkst til vegamála í kjölfar símasölunnar þá var verkið í raun orðið tryggt.

Deildar meiningar

Við vitum þó að um málið var ekki sátt. Það er ekki óeðlilegt. Þetta var á margan hátt viðkvæmt mál og engin ástæða til að gera lítið úr því. En nú er málið komið í heila höfn og maður heyrir engan gagnrýna það lengur. Leiðinlegt var að vísu að sjá menn reyna að gera það tortryggilegt í vetur og freista þess að sá frækornum efans,  þegar fyrir lá að framkvæmdin yrði að veruleika nú í vetur. Sá kafli verður hins vegar  gleymdur og grafinn fljótt, eins og hver önnur gára í tebollanum.

Vegagerðarbyltingin

Aðalatriðið er bara að vita að nú eru framkvæmdir að hefjast einhvern næstu daga. Við keyrum hina nýju leið haustið 2008 eftir svona eitt og hálft ár. Þá ökum við líka beina og breiða og malbikaða braut um Djúpið. Þannig verðum við vitni að hreinum byltingum í vegamálum á Vestfjörðum og sem munu gjörbreyta lífsskilyrðum og atvinnumöguleikum svæðisins. Tíminn líður hratt og við tökumst á við framtíðina við betri aðstæður en fyrr. Samgöngurnar skipta nefnilega svo gríðarlega miklu máli.

Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra
www.ekg.is.