30/04/2024

Annar í aðventutippi

Enn heldur tippleikur strandir.saudfjarsetur.is áfram og nú er komið að 16. umferð. Jón Jónsson hefur örugga forystu í leiknum, en Jón Eðvald Halldórsson frá Drangsnesi og Kristján Sigurðsson á Hólmavík stefna án efa á toppinn líka. Þeir eru ósammála um fjóra af þeim leikjum sem verða spilaðir á laugardaginn. Í spánni sinni bendlar Jón Kristján við neðrideildarlið og skýtur á hann í bundnu máli en Kristján þykist hins vegar halda með Chelsea og hampar ágæti drangsneskrar ýsu. Þess má geta að Kristján hraðsauð sína spá í jólastressi Reykjavíkur  í dag eftir að tölvupóstforrit hafði svikið hann fyrr í vikunni. Lesið spár kappanna hér fyrir neðan og fylgist síðan með á laugardaginn!

1. Chelsea – Wigan

Nonni: Wigan virðist vera að missa flugið eftir svakalega góða byrjun á tímabilinu. Þeir hafa núna tapað þremur leikjum í röð en það er erfitt að dæma þá fyrir það því þessi lið eru öll í toppklassa. Ég hef því miður trú á því að Chel$ky vinni þennan leik þó að Wigan gæti alveg komið til með að standa í þeim. Tákn: 1.

Kristján: Mínir menn í Chelsea taka þetta létt þó í raun sé gaman að halda með Wigan sem er spútnikliðið hingað til í ensku. Tákn: 1.

+++

2. Blackburn – West Ham

Nonni: Blackburn eru fyrirfram sigurstranglegri fyrir þennan leik, en ég er gríðarlega hrifinn af West Ham og ætla því að spá þeim sigur. Ástæðan fyrir því að West Ham er mitt annað lið er sú að eitt af æskuátrúnaðargoðunum mínum, Steve Harris bassaleikari Iron Maiden, er harður West Ham maður. Tákn: 2.

Kristján: Hamrarnir eru í fínu formi og vinna. Tákn: 2.

+++
 
3. W.B.A. – Man. City 

Nonni: Alltaf þegar maður heyrir minnst á West Bromwich Albion dettur manni í hug gæinn með gleraugun við hliðina á Lárusi Orra í flugvélinni. Gríðarlega vel heppnaðar auglýsingar þar á ferð. Man. City átti stórleik í vikunni gegn Charlton og eru því fullir sjálfstrausts. Tákn: 2.
 
Kristján:  Man. City er með einhvern almesta harðjaxl í stól framkvæmdarstjóra sem um getur. Þeir þora hreinlega ekki að tapa þessum leik. Tákn: 2.

+++

4. Bolton – Aston Villa

Nonni: Þarna mætast tveir fyrrverandi framherjar Liverpool, Tékkinn Milan Baros og eyðimerkurblómið El Hadji Diouf. Ég held að hvorugur þeirra eigi eftir að gera einhverjar rósir í þessum leik. Ætli Kevin Nolan tryggi þetta ekki fyrir Bolton, sá er aldeils búinn að spila vel upp á síðkastið. Tákn: 1.

Kristján: Gamla liðið hans Guðna Bergs hefur þetta á seiglunni. Guðni nýbúinn að gefa út bók sem leiðir Bolton til sigurs (þ.e. ef hún hefur komið út á ensku). Tákn: 1.

+++

5. Birmingham – Fulham

Nonni: Ég myndi ekki horfa á þennan leik í sjónvarpinu þó mér yrði borgað fyrir það. Það er eitthvað við Birmingham sem fer alveg ægilega í taugarnar á mér. Ég sé mér þann kost vænstan að setja jafntefli á þennan leik, útisigur er líka möguleiki. Tákn: X.

Kristján: Lundúnaliðið Fullham vinnur. Ég ætla að hafa seðilinn þannig að útisigrar verði margir. Ég á von á því að það gefi góða raun. Önnur sérstök ástæða er s.s. ekki fyrir hendi hvað þennan leik varðar. Tákn: 2.

+++
 
6. Charlton – Sunderland

Nonni: Leikmenn Charlton eru búnir að gera hryllilega upp á bak síðustu vikur. Núna hysja þeir upp um sig buxurnar og vinna sannfærandi.  Tákn: 1.
 
Kristján: Charlton er hörkulið þó ekki hafi gengið hjá þeim sem skyldi undanfarið. Tákn: 1.

+++

7. Newcastle – Arsenal

Nonni: Það gengur ekkert hjá Newcastle þessa dagana, Owen búinn að vera meiddur og hann virðist vera sá eini sem getur skorað í þessu liði. Það er hugsanlegt að hann verði kominn aftur um helgina en það hefur ekkert að segja gegn Arsenal. Tákn: 2.
 
Kristján: Arsenal (alias vopnabúrið) tekur fram öll sín bestu vopn og vinnur nokkuð örugglega. Tákn: 2.
 
+++

8. Leeds – Cardiff

Nonni: Heldur ekki Árni í Odda með Leeds? Ég set merki á Leedsarana honum til heiðurs. Tákn: 1.
 
Kristján: Þetta er erfiður leikur. Ég ætla að veðja á jafntefli í þessum leik. Tákn: X.

+++

9. Crystal Palace – Wolves

Nonni: Eftir miklar vangaveltur og hafa skipt um skoðun þrisvar ákvað ég að setja útisigur á þetta. Það þýðir bara það að þessi verður ekki réttur.Tákn: 2.

Kristján: Úlfarnir vinna. Það hef ég eftir Rúnari bróður mínum sem haldið hefur með þeim frá unga aldri. Ef það klikkar er hann í vondum málum. Tákn: 2.

+++
 
10. Derby – Preston

Nonni: Bæði liðin hafa verið á ágætissiglingu upp á síðkastið og því erfitt að spá fyrir um þennan leik. Derby hafa ekki tapað þremur leikjum í röð en nú held ég að komi að því að þeir lúti í gras. Tákn: 2.

Kristján: Preston siglir fram úr Derby sem má muna sinn fífil fegri. Tákn: 2.
 
+++
 
11. Ipswich – Q.P.R.

Nonni: Æi hvað það getur verið leiðinlegt að tippa á leiki í fyrstu deildinni. Ég veit nákvæmlega ekkert um þessi lið. Skot út í loftið að þetta verði jafntefli. Tákn: X.
 
Kristján: Ipswich var skemmtilegt lið hérna í gamla daga þegar Eric Gates og Arnold Muhren spiluðu þar. Því ætla ég þeim sigur. Tákn: 1.

+++

12. Crewe – Norwich

Nonni: Nú er kominn tími á Darren Huckerby að láta ljós sitt skína. Kallinn er bara búinn að skora fjögur á tímabilinu en núna bætir hann þremur í safnið. Kristján setur líka 2 á þennan. Tákn: 2.

Kristján: Norwich er uppáhaldsliðið hans Sigga Orra sonar míns sem nú dvelur í París. Hann myndi ekki fyrirgefa mér það ef ég veðjaði ekki á þá. Tákn: 2.

+++
 
13. Hull – Sheff. Wed.

Nonni: Vinnufélagi minn segir að þetta verði öruggur sigur hjá Hull. Reyndar var eini rökstuðningur hans á því sá að hann hafi oft komið þangað þegar hann var togarasjómaður á yngri árum. Það eru kannski einhverjir Tryggvasynir í liðinu hjá Hull? En hann hefur ekkert vit á fótbolta og þetta verður jafntefli. Tákn: X.

Kristján: Þetta er nú auðveldasti leikurinn á seðlinum. Auðvitað vinnur Hull. Við Victor skólastjóri erum sammála um það að liðið frá staðnum sem lifir á ýsunni frá Frigga á Drangsnesi geti ekki tapað. En Friggi flytur mikinn fisk til Hull og væntanlega verða þeir Hullarar frískir af fiskáti í leiknum. Tákn: 1.
 
+++

Nonni: Það er óhætt að segja að núna um helgina sigli maður nokkuð blint í sjóinn því ég veit lítið sem ekkert um Kristján. Ég hef samt lúmskan grun um að hann sé eldheitur Norwich aðdáandi. Ef það er eitthvað sem ég hef lært á mínum námsferli er það það að maður skal alltaf bera virðingu fyrir skólayfirvöldum og á því verður engin breyting hér. Því er ekkert vanmat í gangi og ég býst við harðri keppni um helgina. Einhver tímann hlýtur allt gott að taka enda, og þó ég búist ekki við því að falla úr keppni þá finnst mér ólíklegt að ég nái að halda meðaltalinu svona háu til frambúðar. Ég ætla að enda þetta með stuttri vísu, og söngvaskáldið Kristján getur svo spreytt sig á því að búa til lagstúf við.
 
Á norðurhjara Norwich menn
námi stjórna og gera vel.
Að vori vinna nemar senn
verðlaun fyrir rækjuskel.
 
Á sparkvellinum Kristján kennir
hvernig knöttinn á að beisla.
Með tíð og tíma og ef einhver nennir
töfrar hann fram betri Geisla.
 
Kristján: Jæja þá koma leikirnir. Ég ákvað að drífa þetta af þannig að ekki er skrifað mikið um hvern leik. Það verður bara betra næst því ég hlýt að vinna á þennan seðil……