22/12/2024

Allir ljósastaurar á Hólmavík minna á tækifæri um nýja tíma

Hólmvíkingar hafa sjálfsagt tekið eftir því þegar þeir litu út um gluggann í
morgunsárið að allir ljósastaurar í kauptúninu eru komnir með hvítan borða um
sig miðja og sjálfsagt hafa einhverjir velt fyrir sér hverju það sætti. Í
fréttatilkynningu frá hóp á Hólmavík sem kallar sig Styðjum nýtt lýðveldi, eftir
sambærilegum fjöldasamtökum í landinu sem berjast fyrir breytingu á lýðveldinu
Ísland, kemur eftirfarandi fram:

"Við teljum brýnt að hefjast nú þegar handa við að endurreisa traust í
þjóðfélaginu og efla virðingu fyrir reglum lýðræðis og grundvallarstofnunum
samfélagsins. Fólkið í landinu þráir nýtt upphaf og nýjar leikreglur ásamt
endurreisn þeirra gilda sem þjóðin hefur um aldir lagt rækt við, gilda á borð
við heiðarleika, samvinnu, ábyrgð og jöfnuð.

Ísland er ekki lýðveldi.
Ísland er flokksveldi. Íslenska þjóðin býr ekki við þingræði. Hún býr við
flokksræði. Dags daglega býr þjóðin við ráðherravald og ofríki
fárra forystumanna í stjórnmálaflokkum. Og það sem verra er: íslensk þjóð er
ekki lengur sjálfstæð og frjáls.

Hvítur er litur friðar. Hvítur er litur hins
óskrifaða blaðs auk hreinleika og réttlætis. Litur nýs upphafs. Við sjáum sameiginlegt ljós, von um nýtt lýðveldi á Íslandi. Lýðveldi markað sanngjörnum
leikreglum, virðingu fyrir lýðræði og grónum gildum á borð við samhjálp,
heiðarleika, samvinnu, jöfnuð og ábyrgð. Þessi gildi hafa verið fótum troðin
undanfarin ár – við viljum endurreisa þau og treysta í sessi."

Í
fréttatilkynningu er bent á vefsíðuna nyttlydveldi.is fyrir frekari upplýsingar.
Þar er m.a. hægt að skrifa undir áskorun til Forseta Íslands og Alþingis að
hlutast til um að skipun tímabundinnar utanþingsstjórnar sem fari með
framkvæmdavald á grundvelli 15. og 24. greina stjórnarskrár lýðveldisins Íslands
í samræmi við stjórnskipan landsins ásamt að lagður verði grunnur að nýju
lýðveldi með virku og endurnýjuðu lýðræði.

www.nyttlydveldi.is