13/11/2024

Alhliða námskeið í fagforritum BÍ

Framundan er dagsnámskeið á vegum Búnaðarsambands Húnaþings og Stranda á Staðarflöt í Hrútafirði 13. mars og Sævangi í Steingrímsfirði 14. mars. Kennt verður á fagforrit sem notuð eru í búskap. Námskeiðin fara þannig fram að bóndinn kemur með sína tölvu á námskeiðið og vinnur á hana. Í boði verður að láta tölvumann frá BÍ yfirfara tölvuna á meðan á námskeiði stendur, s.s. vírusvarnir, uppsetningu á tengingu við Internetið (e-Max eða Síminn) og uppsetningu á fagforritum í tölvunni.

Megináhersla námskeiðsins er kennsla á Fjárvís.is og dkBúbót, en einnig verður gefinn kostur á að fá aðstoð og leiðbeiningar með hvaða fagforrit BÍ sem er. Tímanum verður skipt niður eins og dagskráin sýnir hér að neðan. Tímaramminn er ekki heilagur þannig að þeir sem vilja halda áfram að skoða Fjárvís.is í stað þess að fara í dkBúbót hafa kost á því og þeir sem ekki hafa áhuga á að skoða Fjárvís.is geta samt mætt strax um morguninn og fengið aðstoð við dkBúbót eða önnur fagforrit.

Leiðbeinendur verða frá Bændasamtökum Íslands og búnaðarsamböndunum  og verður m.a. tölvusérfræðingur Bændasamtakanna á öllum námskeiðunum til að yfirfara tölvur og ráðgjafar um tölvumál.

Dagskrá:
09:00 – 12:00 Fjárvís.is – Farið yfir notkun á nýju sauðfjárræktar­forriti og það kynnt fyrir verðandi notendum.
12:00 – 13:00 Hádegishlé
13:00 – 15:00 dkBúbót – Kynntar helstu nýjungar s.s. hýsing á dkBúbót. Farið yfir almenna notkun á bókhaldsforritinu fyrir byrjendur og aðgerðaröð við afstemmingu, ársreikning og framtal fyrir lengra komna. dkBúbótar fræðslan er einstaklingsmiðuð og getur tekið allan daginn fyrir þá sem það kjósa.
15:00 – 15:30 Kaffihlé
15:30 – 19:00 Frjáls tími fyrir bændur til að fá aðstoð og leið­bein­ingar með hvaða fagforrit sem er, þ.e. Fjárvis.is, dos-Fjárvís, NPK, dkBúbót, Ískýr, Huppa, Mark, WorldFengur. Einnig hægt að fá aðstoð við hin ýmsu mál varðandi tölvuna, s.s. brenna efni á geisladisk.

Fjöldi þátttakenda takmarkast við um það bil 20 manns eftir aðstæðum. Þátttaka tilkynnist fyrir 8. mars hjá BHS – Verð 10.000 kr. (fyrir niðurgr.) Dagsnámskeiðin byrja kl. 9 og standa til kl 19, en lok námskeiða geta verið breytileg ef einhverjir vilja fara fyrr eða er nauðsynlegt að sitja örlítið lengur við. Námskeiðsstaðir munu opna klukkan 8 fyrir þá sem eru árrisulir.