25/04/2024

Afmælismót Friðriks Ólafssonar í Djúpavík

Fréttatilkynning
"Ég hlakka til að koma á Strandir," sagði Friðrik Ólafsson stórmeistari í samtali við fréttavefinn Litlahjalla í Árneshreppi. Afmælismót Friðriks verður haldið í Djúpavík á laugardaginn. Þar teflir Friðrik, sem er 75 ára á árinu, ásamt meisturum á borð við Helga Ólafsson og Jóhann Hjartarson. Fjöldi áhugamanna á öllum aldri er skráður til leiks, enda er mótið galopið fyrir börn og byrjendur, stórbændur á Ströndum og stórmeistara í skák.

Skákhátíðin í Árneshreppi hefst á föstudagskvöldið klukkan 20 með tvískákarmóti í síldarverksmiðjunni í Djúpavík. Tvískák er skemmtilegt keppnisform þar sem tveir eru saman í liði og ævintýramennskan ræður ríkjum.

Klukkan 13 á laugardag verður Afmælismót Friðriks Ólafssonar í Djúpavík 2010 sett. Tefldar verða 9 umferðir og eru veitt verðlaun í fjölmörgum flokkum, meðal annars barna, heimamanna, stigalausra skákmanna o.fl. Þá verður best klæddi keppandinn valinn, sem og háttvísasti keppandinn, og eru báðir leystir út með veglegum (og gómsætum) vinningum. Heildarverðlaunafé á mótinu er um 200 þúsund krónur.

Á sunnudag klukkan 12:30 verður hraðskákmót í Kaffi Norðurfirði, þar sem tefldar verða 6 umferðir með 5 mínútna umhugsunartíma.