23/12/2024

Ægishjálmur – þjóðsögur af Ströndum

Á næstunni mun Strandagaldur endurútgefa bókina Ægishjálmur – þjóðsögur af Ströndum sem hljóðbók. Bókin sem kom út árið 1996 var tekin saman af Magnúsi Rafnssyni og Héraðsnefnd Strandasýslu gaf hana út á sínum tíma en bókin hefur verið uppseld um langan tíma. Þetta verkefni hefur verið í vinnslu nokkuð lengi en Magnús las bókina inn í hljóðveri hjá tónlistarmanninum Hilmari Erni Hilmarssyni fyrir allnokkru. Ægishjálmur – þjóðsögur af Ströndum kemur út á tveim geisladiskum og allar teikningarnar úr bókinni munu einnig fylgja með í pakkanum ásamt kortinu sem segir hvar sögurnar eru staðsettar á Ströndum.


Hljóðbókin verður til sölu hjá Galdrasýningu á Ströndum og að sjálfsögðu einnig í Strandabúðinni á vefnum. Í bókinni er að finna 24 þjóðsögur víðsvegar af Ströndum, sunnan úr Hrútafirði og að nyrstu svæðum Stranda. Myndskreytingarnar eru eftir Calum Campbell.