11/09/2024

Aðventutipp

Þeir Smári Gunnarsson og Jón Eðvald Halldórsson mætast í tippleik strandir.saudfjarsetur.is á laugardaginn, aðra helgina í röð. Kapparnir gerðu jafntefli á síðustu helgi, 8-8, og því er líklegt að baráttan verði í algleymingi á laugardaginn. Þeir eru afar sammála í spám sínum – ósammála um aðeins þrjá leiki. Í spánni sinni segir Smári m.a. frá hrakförum sínum í Sheffield forðum daga og nýlegum afrekum í strippi utandyra í Danaveldi. Nonni spáir hins vegar í hversu margar rækjusamlokur Þórður Guðjónsson muni borða um helgina og að danski jólabjórinn muni verða Smára að falli um helgina. Það verður spennandi að fylgjast með á laugardaginn, en þangað til er hægt að skemmta sér við að lesa spár spekinganna:

1. Bolton – Arsenal

Smári: Arsenal mæta kærulausir til leiks. Þeir eru nefnilega búnir að vera drullugóðir í síðustu leikjum. Átta sig í hálfleik, hlaða fallbyssurnar og skjóta Bolton í kaf. Wenger fagnar með því að skjóta á Mourinho í fjölmiðlum. Tákn: 2.

Nonni: Arsene Wenger sagði fyrir stuttu að margir af leikmönnum sínum séu of rómantískir og vilji helst daðra við boltann löngum stundum. Bullandi kynvilla þarna á ferðinni en þetta endar með sigri nallanna. Tákn: 2.

+++
 
2. Chelsea – Middlesboro

Smári: Chelsea búnir að tapa einum leik í deildinni…ég er ekki að fara að sjá Middlesborough breyta þeirri tölu eitthvað. Mourinho fer heim til Arsene Wenger eftir leik og kveikir í hundaskít á veröndinni hans. Verður aldeilis gaman fyrir Frakkann að koma heim frá Bolton! Tákn: 1.

Nonni: Jose Mourinho ákveður upp á sitt einsdæmi að taka áhorfendur á taugum með því að senda þeim fokk merki. Því miður fyrir kallgreyið fór það alveg fram hjá honum að Chel$ky er á heimavelli. Chel$ky vinnur en Jose verður rekinn á mánudaginn. Tákn: 1.

+++
 
3. Tottenham – Sunderland

Smári: Tottararnir eru komnir á skrið eftir góðan sigur á Wigan í síðustu viku. Það sem meira er að Edgar Davids skoraði, og er núna kominn í gírinn. Hann er búinn að vera svo glaður síðustu daga og tala um í fjölmiðlum að hann sé búinn að fá svo mörg jólakort frá nýju vinunum sínum, dómurum í Englandi. Skorar klárlega aftur í þessum leik! Tákn: 1.

Nonni: Ég skil nú bara ekkert í þér Smári að fá ekki Defoe til Liverpool þegar þú uppgötvaðir hann hérna um árið. Þú ert kannski Tottari inn við beinið? Ég sleppi þér með áminningu í þetta skipti og skrifa þessi mistök á Kolla og Andra. Þetta verður öruggur Tottenham sigur. Tákn: 1.

+++
 
4. Blackburn – Everton

Smári: Blackburn vinnur…. 1-0, þetta verður einn leiðinlegast leikur allra tíma. Tákn: 1.

Nonni: Ég gerði þau mistök um daginn að tippa á Everton  og það eru mistök sem ég geri aldrei aftur. Þar sem Smári hefur einhverja undarlega fordóma gagnvart heillakallinum honum Robbie Savage, sem er núna aðalmaðurinn hjá Blackburn, gerir hann sömu mistök og ég gerði. Sorrý Smári þetta verður þér að falli en þú lærir vonandi af reynslunni. Tákn: 1.

+++
 
5. W.B.A. – Fulham

Smári: Nú kæmi þrítrygging sér að góðum notum. Bæði lið búin að vera eins og jójó…vinna og tapa til skiptis. Enginn stöðugleiki… þannig að það er bara heppnin sem gildir hérna! Kók og pipp fyrir Nonna ef hann vinnur stig á mig hérna! …Ég giska á að…Fulham vinni! Tákn: 2.

Nonni: Það væri gaman að fá að vita hvað Heiðar Helguson er búinn að hjóla marga kílómetra í hliðarlínunni hjá Fulham í vetur. Kallinn er bókstaflega alltaf á þrekhjólinu. Ef við leikum okkur aðeins að tölfræðinni og segjum að í upphitunum sé hann búinn að hjóla alls 1000 km á tímabilinu. Hann hefur spilað í 68 mínútur á leiktíðinni hingað til. Þá er hann búinn að hjóla 14,7 km í upphitun fyrir hverja spilaða mínútu. Og hvað segir það okkur? Ekki neitt nema það að ég ætti að finna mér eitthvað þarfara að gera en að spá í þessu. Tákn: X.

+++
 
6. Newcastle – Aston Villa

Smári: Owen meiddur og Shearer er jafn umdeildur og Kristján Finnboga þessa dagana…þannig að hann hefur sig hægan! Villarar töpuðu á móti stórliði Doncaster í vikunni, þetta er svona jafnteflisleikur eitthvað! Tákn: X.

Nonni: Æji hvað á maður að segja um þennan leik? Þessi lið eiga það sameiginlegt að vera með ágætis hóp, fyrrverandi Liverpool leikmenn í framlínunni og gjörsamlega óþolandi framkvæmdastjóra. Ég spáði Aston Villa jafntefli um síðustu helgi en það klikkaði. Reyni það samt aftur. Báðir framkvæmdastjórarnir segja eftir leikinn að þeir hefðu átt skilið að fá meira út úr þessum leik. Tákn: X.

+++
 
7. Man. Utd. – Portsmouth

Smári: Ég myndi gjarnan vilja sjá Portsmouth menn grilla United. Kannski í næsta lífi… Tákn: 1.

Nonni: Það verður að segjast eins og er að það er aldrei gaman að spá Manchester United States sigri. En ætli maður verði ekki lufsast til þess svo maður eigi nú einhverja möguleika í þessu einvígi. Tákn: 1.

+++
 
8. Sheff. Utd. – Sheff. Wed.

Smári: Vááááá….Uppgjörið í Sheffield. Sama hvernig þessi leikur fer þá verður allt vitlaust í Sheffield á laugardagskvöldið. Minnir mig á þegar við strákarnir lentum nærri því íðí þegar við vorum í Liverpool kvöldið fyrir localslaginn þar. Vorum spurðir af ofbeldisgengi með hvoru liðinu við héldum, vitandi það að við yrðum drepnir ef við héldum með röngu liði. Við sögðum: “Liverpool” og gerðum okkur líklega til að hlaupa heim á hotel til að ná í Helga og Júlla og hræða gengið. Sem betur fer svöruðum við rétt..og þess vegna er ég hér í dag!  smá útúrdúr! Þetta verður heimasigur…fyrir Sheffield United! Tákn: 1.

Nonni: Þetta er leikurinn sem allir hafa beðið eftir, Derbyslagur Sheffield liðanna. Hundur skal ég heita ef Sheffield nær ekki stigi í þessum leik! Pottþéttur heimasigur! Tákn: 1.

++
 
9. Leeds – Leicester

Smári: Leeds vinna þetta án þess að fá drullublett á hvítu búningana. Eru alltaf eins og hlaupandi hjúkkur… spurning vera með hlustunarpípur um hálsinn til að líta aðeins karlmannlegri út. Tákn: 1.

Nonni: Þessi leikur fer 2-0 fyrir Leeds, David Batty og  Lee Chapman skora mörkin og ég er ekki frá því að John Lukic eigi stórleik í markinu. Tákn: 1.

+++
 
10. Ipswich – Wolves

Smári: Ipswich menn gráta: “Úlfur úlfur” …  en enginn kemur og hjálpar þeim. Fullt tungl og Ipswich verða snæddir. Tákn: 2.

Nonni: Hann karl faðir minn klikkaði ekki um síðustu helgi þegar hann sagði mér að giska á Luton. Maður getur ekki annað en tekið mark á honum þegar hann segir að þetta sé steindautt jafntefli. Tákn: X.

+++
 
11. Southampton – Burnley

Smári: Burnley eru búnir að vinna 5 af síðustu 6 leikjum en Southampton eru búnir að vera að smjatta á bökuðum baunum í nokkrar vikur hjá Harry Redknapp. Búnir að vera skítlélegir… en ég hef það á tilfinningunni að þeir standi í gestunum. Mig langar til að setja einn á þetta en læt mér nægja að spá jafntefli. Tákn: X.

Nonni: Regla nr.1 í getraunum: Alltaf tippa á Liverpool! Regla nr.2 í getraunum: Alltaf tippa á Burnley! Tákn: 2.

+++

12. Derby – Norwich

Smári: Ég hef aldrei verið með leik réttan hjá þessum liðum síðan ég byrjaði hérna í þessu tipperíi. Þetta eru liðin í 16. og 17. sæti og það er dagsformið sem ræður úrslitum hérna. Seth Johnson í banni hjá heimamönnum en ég segi að þeir þjappi sér saman og vinni góðan sigur. Tákn: 1.

Nonni: Þessi leikur frestast vegna þoku, og því verður uppkast. 56% líkur á að táknið verði 1. Tákn: 1.
 
+++

13. Stoke – QPR

Smári: Queens Park eru búnir að vera ömurlegir í síðustu leikjum og Stoke góðir… ahhh… mig langar að halda að Stoke mæti til leiks of góðir með sig og að QPR vinni. En ætli Stoke taki þetta ekki.. Hannes kemur inná sem varamaður og setur eina Hafnfirska kleinu upp í Samúel. Tákn: 1.

Nonni: Það barst frétt nú í vikunni um það að Þórður Guðjónsson gæti ekki losað sig undan samningi hjá Stoke. Kallræfilstuskan þarf því að taka á móti laununum sínum alveg fram á vor án þess að þurfa að hreyfa á sér afturendann. Hann gerir því ekki stóra hluti á Skaganum næsta sumar en kemur allavega feitur og pattaralegur undan vetri. Þórður borðar tvær rækjusamlokur þegar hann horfir á Stoke vinna QPR. Tákn: 1.

+++
 
Smári: Enn ein helgin í skotgröfunum. Þetta er nú samt helvíti skemmtilegt…aldrei að vita nema maður haldi áfram að tippa sér til gamans þegar maður verður sleginn út hérna. Það er allavega eitt sem ég og Nonni getum verið sammála um í dag er hversu vel Liverpool eru búnir að vera að spila síðustu misseri, bara komnir í 4. sætið. Leiðin liggur hratt upp á við hjá okkar mönnum… Helst í fréttum af sjálfum mér er að í Danmörku er kalt í dag. Ég var að leika í myndbandi áðan sem krafðist þess að ég væri svo gott sem nakinn utandyra… og það var ósköp svipað að strípalingast hérna og ég ímynda mér að sé á Íslandi núna.

Kuldaboli bítur
Fast um allan heim
Á leikina drengur skítur
Lobster eða Fame?

Í Danmörku og Íslandi
Þarf að hefla veg
Á laugardag verður í standi
Jón eða ég!

Nonni: Ég verð að viðurkenna það að seðlarnir gerast ekki erfiðari en þetta. En maður getur ekki annað en verið fullur sjálfstrausts eftir að hafa verið með átta leiki rétta síðast og því spái ég að árangurinn verði ennþá betri núna. Smári á hrós skilið fyrir að hafa náð jafntefli og sýna að á góðum degi geti hann velgt atvinnumönnum verulega undir uggum. En nú er jólabjórinn kominn í verslanir í Danmörku og Smárinn á ekki eftir að standast slíkar freistingar. Því er eftirleikurinn auðveldur fyrir mig.