19/04/2024

Fjör hjá Ozon

Í haust hefur verið blómlegt starf hjá félagsmiðstöðinni Ozon á Hólmavík. Bjarni Ómar Haraldsson hefur verið ungmennunum til aðstoðar líkt og undanfarna vetur, en hann hefur undanfarin misseri stundað nám í tómstundafræðum. Haustið hjá Ozon hófst með hefðbundnum hætti. Kosið var í tvö 5 manna nemendaráð, annarsvegar fyrir yngri hóp og hinsvegar fyrir eldri hópinn. Auk þess að skipuleggja og framkvæma viðburði á vegum félagsmiðstöðvarinnar skipuleggja nemendaráðin líka viðburði á vegum Skólans. Samkvæmt venju er opið eitt kvöld í viku á miðvikudögum fyrir 8.-10. bekk og annan hvern mánudag fyrir 5.-7. bekk. Í hefðbundnum opnunartíma er ýmislegt gert og í haust er t.d. búið að halda átkeppni, Singstarkvöld, 80’kvöld, keppni um Olsen meistara aldarinnar, Chillkvöld og tölvukvöld.

Af stærri viðburðum var ferð á forvarnarball í Borganes þar sem einkunnarorðin voru, “Ég hugsa, ég reyki ekki”, og móttaka 50 gesta frá félagsmiðstöðinni í Bolungarvík þar sem m.a. var farið í heimsókn til Drangsness.

Í burðarliðnum er forval Ozon fyrir söngvakeppni Samfés. Forvalskeppnin fer fram í Bragganum 7. desember. Nú getur almenningur í fyrsta sinn fylgst með keppninni. 

Stefnt er að fjáröflunartónleikum fyrir jól og unglingarnir eru nýbúnir að ganga í hús og selja bókina Ísland í dag.  Hagnaður af bóksölunni og fjáröflunartónleikunum rennur óskiptur til áframhaldandi uppbyggingar á músíkkjallaranum svokallaða sem er í mötuneyti Grunnskólans. Langflestir sem sækja félagsmiðstöðina nota sér þessa aðstöðu, en hún nýtist einnig öðrum nemendum Grunnskólans afar vel. Tónskólinn á Hólmavík er samstarfsaðili Ozon um upbyggingu músíkkjallarans.

Hólmavíkurhreppur styður starf Ozon, t.d. með að leggja til húsnæði og lána skólabílinn í ferðalög. Hreppurinn greiðir laun í 30 tíma á mánuði fyrir starf umsjónarmanns, þannig að það gefur augaleið að móttaka gesta og lengri ferðir fara með tímakvóta mánaðarins.


Unglingarnir í Ozon hafa selt um 70 eintök af bókinni Ísland i dag. Hér eru fjórar glaðhlakkalegar stúlkur í söluferð.