22/12/2024

Aðfluttir fleiri en brottfluttir

VíkurnarSamkvæmt tölum Hagstofunnar fyrir tímabilið janúar til september 2007 eru aðfluttir á Strandir fleiri en brottfluttir og munar þar um tvo einstaklinga. Staðan er þó misjöfn milli sveitarfélaga því fimm fleiri hafa flutt í Bæjarhrepp en fluttu þaðan. Úr Árneshreppi hafa hins vegar flutt þrír fleiri en þangað fluttu á tímabilinu. Jafnmargir hafa svo flutt úr og í Strandabyggð og Kaldrananeshrepp á þessu tímabili.

Mestir flutningar eru milli landssvæða, af öðrum landssvæðum hafa til dæmis 33 flutt í Strandabyggð á tímabilinu, en 28 í burtu. Þannig er mikil hreyfing á fólki, sem gefur auðsjáanlega viss tækifæri hvað varðar byggðaþróun.

Alls hafa 6 flutt til Stranda frá öðrum löndum á tímabilinu, en 4 flutt erlendis. 4 flytja í önnur sveitarfélög innan sama landssvæðis, en enginn kom til baka úr öðrum sveitarfélögum á Vestfjarðakjálkanum. 48 hafa síðan flutt lögheimilið á Strandir úr öðrum landshlutum á þessu tímabili, en 44 í burtu.