12/09/2024

Aðalfundur ungra framsóknarmanna

Félag ungra framsóknarmanna í Dala- og Strandasýslu (FUF-DS) hélt aðalfund þann 28. desember 2005 að Laugum í Sælingsdal. Þar var kosin ný stjórn í félaginu. Í henni eru Inga Guðrún Kristjánsdóttir formaður, Svava Halldóra Friðgeirsdóttir varaformaður, Guðmundur Freyr Geirsson, Harpa Hlín Haraldsdóttir og Heiðar Þór Gunnarsson. Í fréttatilkynningu segir að fundurinn hafi verið málefnalegur og að fólk sé að komast í baráttuhug fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundinum:

Farsíma- og netsamband

Félag ungra framsóknarmanna í Dala- og Strandsýslu (FUF-DS) skorar á ríkisstjórnina að setja í forgang að tryggja GSM-samband og háhraða-internetsamband á öllu landinu. Farsímasamband er eitt mikilvægasta
öryggistækið á afskekktari stöðum m.a. þegar að slys ber að höndum. Netsamband er sá upplýsingamiðill sem hvað mest er notaður í þekkingarþjóðfélagi nútímans.

Því krefst FUF-DS þess að allir landsmenn sitji við sama borð og njóti jafnréttis í aðgengi að þessum upplýsingamiðlum. Félagið skorar á ríkisstjórnina að verja hluta af ágóða sölu Símans til þess að byggja upp
nútíma fjarskipti í formi GSM- og netsambands í allri Dala- og Strandasýslu.

Samgöngumál

Félag ungra framsóknarmanna í Dala- og Strandasýslu (FUF-DS) fagnar því að ráðist hafi verið í framkvæmdir á veginum yfir Svínadal sem liggur milli Dalabyggðar og Saurbæjarhrepps í Dalasýslu. Hins vegar harmar félagið það að ekki hafi verið ráðist í gagngerar endurbætur á veginum norður Strandir og skorar á samgönguráðherra að hefja framkvæmdir hið fyrsta. Einnig vonar FUF-DS að farið verði í aðrar nauðsynlegar vegaframkvæmdir á svæðinu.