09/09/2024

Aðalfundur Strandasýsludeildar Rauða krossins

Strandasýsludeild Rauða krossins heldur aðalfund í Rósubúð, húsi björgunarsveitarinnar Dagrenningar, í kvöld, þriðjudaginn 8. febrúar kl. 20.00.  Gestir fundarins eru þau Kristján Sturluson framkvæmdastjóri RKÍ og  Guðný Björnsdóttir svæðisfulltrúi á Norðurlandi kynning í grunn- og leikskóla.
Meðal verkefna Strandasýsludeildar eru: Neyðarvarnir – neyðarvarnaráætlun er uppfærð reglulega og viðragðsaðilum boðið upp á námskeið eftir þörfum. Neyðarastoð – brugðist er við neyðarbeiðnum jafnt  innanlands sem utan. Skyndihjáparnámskeið – eftir þörfum og hverju sinn. Skyndihjálp kynnt á 112 degi. Fatamóttaka.

Eitt af nýrri verkefnum deildarinnar eru – Heimsóknavinir – sem felst í því að deildin býður fólki sem er einmana og félagslega einangrað  að  leita til deildarinnar þar sem að skipulagðar eru heimsóknir til viðkomandi reglulega.

Félagar sem hafa greitt árgjald liðins árs hafa atkvæðisrétt á fundinum. Líka allir þeir sem mæta og velja að ganga til liðs við það mannúðarstarf Rauða krossins.
 
Hugsjónir og markmið

Hugsjónagrundvöllur Rauða krossins er fólginn í markmiðunum sjö um mannúð, óhlutdrægni, hlutleysi, sjálfstæði, sjálfboðna þjónustu, einingu og alheimshreyfingu. Sérhverjum starfsmanni og sjálfboðaliða Rauða krossins um heim allan ber að starfa samkvæmt grundvallarmarkmiðunum.

Mannúð

Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans , sem spratt upp af löngun til að veita þeim sem særst höfðu á orrustuvelli hjálp án manngreinarálits, reynir með alþjóðlegu starfi og starfi landsfélaga að koma í veg  fyrir og létta þjáningar fólks hvar sem það er statt. Tilgangur hreyfingarinnar er að vernda líf og heilsu og tryggja virðingu fyrir mannlegu lífi. Hún vinnur að gagnkvæmum skilningi, vináttu, samstarfi og varanlegum friði meðal allra þjóða.

Óhlutdrægni

Hreyfingin gerir engan mun á milli manna eftir þjóðerni þeirra, uppruna, trúarbrögðum, kyni, stétt eða stjórnmálaskoðunum. Hún reynir að draga úr þjáningum einstaklinga og tekur þá eingöngu tillit til þarfa hvers og eins en veitir forgang þeim sem verst eru staddir.

Hlutleysi

Svo að hreyfingin  megi áfram njóta almenns trausts, skal hún gæta hlutleysis í ófriði og aldrei taka þátt í deilum vegna stjórnmála, uppruna, trúarbragða eða hugmyndafræði.
Sjálfstæði

Hreyfingin er sjálfstæð. Þótt landsfélög veiti aðstoð í mannúðarstarfi stjórnvalda og lúti lögum lands síns, verða þau ætíð að varðveita sjálfstæði sitt svo þau geti starfað í samræmi við grundvallarmarkmið hreyfingarinnar.

Sjálfboðin þjónusta

Hreyfingin er borin uppi af sjálfboðnu hjálparstarfi og lætur aldrei stjórnast af hagnaðarvon.

Eining

Í hverju landi má aðeins vera eitt landsfélag Rauða krossins eða Rauða hálfmánans. Það skal vera öllum opið og vinna mannúðarstarf um landið allt.

Alheimshreyfing

Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans nær um heim allan, og öll landsfélög hafa jafnan rétt og ábyrgð og sömu skyldur til gagnkvæmrar hjálpar.