Laugardaginn 15. janúar verður Íþróttamiðstöðin Hólmavík tekin formlega í notkun með miklum hátíðahöldum. Þriggja manna nefnd hefur skipulagt hátíðina og væntanlega verður mikið um dýrðir. Íþróttamiðstöðin er reist af miklum stórhug, langþráður draumur um sundlaug á Hólmavík rættist með byggingu hennar og stórt íþróttahús opnar ýmsa möguleika á keppnishaldi og íþróttaiðkun íbúa á Ströndum. Í þessari fréttaskýringu verður Íþróttamiðstöðin kynnt og stikað á stóru í sögu byggingarinnar, auk þess sem rædd er þýðing hennar og kostnaður við framkvæmdina og rekstur í framtíðinni.
Íþróttamiðstöðin samanstendur af 25 m útisundlaug með tveimur heitum pottum og buslulaug, þjónustuhúsi með afgreiðslu, búningsklefum og sturtuklefum með 5 sturtum hvor, salernum fyrir fatlaða og ófatlaða, gufubaði og litlum líkamsræktarsal, íþróttasal og geymsluherbergi fyrir áhöld. Einnig er í hluta hússins tækjabúnaður fyrir hitun á vatninu í sundlaugina og hreinsun á því. Í litlu húsi sem reist var aftan við Íþróttamiðstöðina er varakyndistöð, en laugin og húsið er kynnt með ótryggri raforku frá Orkubúi Vestfjarða til að minnka orkukostnað. Arkitektar við bygginguna var Arkís ehf.
Framkvæmdir hófust 2002 og fyrsta skóflustungan að byggingunni var tekin 25. júlí 2002. Það gerðu vinkonurnar Sara Benediktsdóttir og Árný Huld Haraldsdóttir sem báðar voru þá á 17. ári, en þær höfðu öll sín grunnskólaár á Hólmavík safnað peningum til sundlaugarbyggingar með hlutaveltum og fleiri uppátækjum.
Annar áfangi byggingarinnar var síðan boðinn út seint á árinu 2003 og aftur var viðhaft lokað útboð. Kostnaðaráætlun við annan áfanga sem hafði á þessum tíma runnið saman við þriðja áfanga vegna tafa á verkefninu var rúmar 79 milljónir og bárust þrjú tilboð. Lægst bauð Ágúst og Flosi ehf á Ísafirði eða 67,4 milljónir en eftir skoðun á einstökum atriðum í tilboðunum og viðræður við bjóðendur, ákvað hreppsnefnd Hólmavíkurhrepps að ganga til samninga við Trésmiðju Guðmundar Friðrikssonar í Grundarfirði. Vinnu við sundlaug og þjónustuhús átti að vera lokið í 15. apríl 2004, en það dróst um nokkrar vikur og einnig urðu tafir vegna byggingar á kyndistöð fyrir varaaflið, en ekki var gert ráð fyrir henni í upphafi. Aðalbyggingin rúmaði einfaldlega ekki allan nauðsynlegan búnað þegar til kom.
Sundlaugin var síðan opnuð síðastliðið sumar, þann 17. júlí, við góðar undirtektir. Langflestir komu fyrsta mánuðinn á meðan ferðaþjónustan var í fullum gangi eða um það bil 150 manns á dag. Mest komu 300 manns á einum degi í laugina. Heimsóknir í sundlaugina voru alls rétt tæplega 6 þúsund fyrsta starfsárið, frá 17. júlí. Þá er skólasundið ekki talið með, en skólabörnum á Hólmavík var kennt sund í lauginni nærri allt haustmisserið. Góðir möguleikar hljóta að vera á að fjölga heimsóknum ferðamanna verulega með markvissri kynningu og ferðaþjónustuaðilar á Ströndum sem spurðir voru álits telja ekki óvarlegt að áætla að gestafjöldinn geti farið í 15 þúsund á árinu 2005 miðað við óbreyttan opnunartíma yfir sumarið. Þegar hefur verið gerð lítil vefsíða um sundlaugina undir vef Upplýsingamiðstöðvarinnar.

Það virðist samdóma álit Hólmvíkinga að það sé grundvallarbreyting að fá sundlaug í þorpið. Langþráður draumur sem lesa má um af og til í kosningaloforðalistum og fundargerðum félaga og hreppsnefnda frá því fyrir miðja síðustu öld. Valdimar Guðmundsson hreppsnefndarmaður orðar það þannig í svari við tölvubréfi: "Íþróttamiðstöðin ætti að breyta miklu fyrir íbúana, bæði andlega sem líkamlega. Þrek og heilsa ætti að verða betri sem skilar sér í bættri lífshamingju."

Kostnaður við framkvæmdina við Íþróttamiðstöðina er orðinn tæpar 213 milljónir og ekki eru alveg öll kurl komin til grafar varðandi kostnað. Nokkur smáverkefni eru eftir, en þau eru flest minniháttar, t.d. er hugmyndin að loka líkamsræktarsalinn sem fengið hefur nafnið Flosaból af og eftir er að kaupa eitthvað af tækjum og gera smávægilegar lagfæringar. Sala á hlut sveitarfélagsins í Orkubúi Vestfjarða til ríkins gerði framkvæmdina mögulega, en einnig styrkir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga venjulega íþróttamannvirki og sundlaugabyggingar. Frá Jöfnunarsjóði komu tæplega 27 milljónir til þessarar framkvæmdar. Upphafleg fjárhagsáætlun við Íþróttamiðstöðina var um 147 milljónir, en síðar var gert ráð fyrir að kostnaður yrði 170 milljónir.
Framtíðin
Það er ljóst að reksturinn á Íþróttamiðstöðinni og stofnkostnaðurinn verður sveitarfélaginu erfiður, en enn á eftir að koma í ljós til hvaða ráða hreppsnefnd grípur í því samhengi. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2005 liggur ekki fyrir enn. Spurður um hvort reksturinn verði viðráðanlegur fyrir sveitarfélagið svarar Valdemar Guðmundsson hreppsnefndarmaður því einfaldlega neitandi og bætir við, ekki eins og staðan er í dag. Hann telur að ef sundlaugin eigi að koma að fullum notum fyrir íbúana þurfi að koma létt þak yfir hana á vetrum, t.d. dúkur sem væri hægt að fjarlægja á sumrin. Þessa hugmynd og margar aðrar þurfa hreppsnefndarmenn á Hólmavík væntanlega að taka til skoðunar á næstunni.
