29/04/2024

5 mánuðir til að gera tilboð í háhraðanet í sveitum

Steinrunnin tröllRíkiskaup hefur nú óskað eftir tilboðum í uppbyggingu háhraðanettenginga á vegum Fjarskiptasjóðs. Frestur til að gera tilboð rennur ekki út fyrr en 31. júlí 2008, þannig að ljóst er að íbúar dreifbýlisins verða enn að bíða eftir að fá viðunandi nettengingar. Samkvæmt Fjarskiptaáætlun átti þessari háhraðavæðingu í dreifbýlinu að vera lokið á árinu 2007 og ítrekaði Sturla Böðvarsson þáverandi samgönguráðherra í ræðu og riti fyrir kosningarnar vorið 2007 að það myndi takast að mestu. Framkvæmdin hefur hins vegar gengið hægt og drátturinn á þessu mikla hagsmunamáli dreifbýlisins er mikil vonbrigði.

Um er að ræða 1500 staði samkvæmt ræðu Kristjáns Möllers núverandi samgönguráðherra á Alþingi snemma í febrúar. Á heimasíðu Fjarskiptasjóðs og í auglýsingu frá honum hefur komið fram að listi með upptalningu og staðsetningu á öllum þeim fasteigna sem þjónustan muni ná til verði birt opinberlega fyrir útboðið, en ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is er ekki kunnugt um að það hafi verið gert. Var þetta hugsað til að þess að "íbúar, fjarskiptafyrirtæki og hagsmunaaðilar gætu gert athugasemdir".

Verkefnið felur í sér stuðning við uppbyggingu á háhraðanettengingum á lögheimilum í sveit með heilsársbúsetu og fyrirtækjum með starfsemi allt árið, þar sem háhraðanettengingar eru hvorki í boði né fyrirhugaðar á markaðslegum forsendum. Samkvæmt ræðu núverandi samgönguráðherra Kristjáns Möllers er gert ráð fyrir 2 mb lágmarkshraða.

Í útboðinu kemur fram að um er að ræða verkefni sem tryggir íbúum á ofangreindum svæðum háhraðanettengingar og tilheyrandi þjónustu til ársins 2014 hið minnsta. Tilboð verða m.a. metin út frá hraða uppbyggingar, gagnaflutningshraða og tilboðsfjárhæð.