23/04/2024

1200 manns með Sædísi í sumar

Ferðum á Hornstrandir frá Norðurfirði í Árneshreppi þetta árið með bátnum Sædísi hefur nú verið hætt, en síðasta ferðin var farin 9. ágúst síðastliðinn. Að sögn Reimars Vilmundarsonar skipstjóra á Sædísi var sumarið mjög gott og voru um 1200 manns fluttir til og frá Norðurfirði. Er það aukning um 450 manns milli ára, þannig að vinsældir svæðisins eru greinilega að aukast verulega, enda er nú orðið þægilegra að nálgast svæðið þó menn séu ekki þaulvanir göngugarpar.

Ekki er ráð nema í tíma sé tekið og sennilega er haustið rétti tíminn til að huga að Hornstrandaferð næsta árs og panta ferðir og gistingu. Gistingu í svefnpokaplássi má nú fá á þremur stöðum í óbyggðum norðan Stranda, í Hornbjargsvita í Látravík, hjá Ferðaþjónustunni Mávabergi í Bolungavík og hjá Ferðaþjónustunni Reykjarfirði.

Vefurinn hjá Reimar Vilmundarsyni sem er með bátsferðirnar frá Norðurfirði er á slóðinni www.freydis.is.