22/12/2024

101 ný vestfirsk þjóðsaga

Út er komið hjá Vestfirska forlaginu áttunda bindið af hinum landsþekktu þjóðsögum um Vestfirðinga, lífs og liðna, í ritröð Gísla Hjartarsonar ritstjóra á Ísafirði. Í fréttatilkynningu segir: "Þjóðsögurnar hafa gersamlega slegið í gegn á Vestfjörðum undanfarin sjö ár. Hafa fyrri bækurnar sjö orðið allra söluhæstar jólabóka á Vestfjörðum frá upphafi útkomu þeirra í desember 1998. Gildir þá einu hvort heldur er um að ræða Ísafjörð, Borðeyri, Bolungarvík, Reykhólasveit, Norðurfjörð, Vesturbyggð, Drangsnes, Hólmavík, Þingeyri, Tálknafjörð, eða önnur vestfirsk byggðarlög þar sem bækur eru falar." Nánari upplýsingar og sögur úr nýju bókinni fylgja hér að neðan.

Ennfremur segir í frétt frá útgáfunni:

"Þjóðsögur Gísla hafa verið eitt vinsælasta lesefni brottfluttra Vestfirðinga búsettra í öðrum landshlutum. Eru þjóðsögurnar yfirleitt látnar fylgja með til þeirra í jólabögglunum frá vinum og ættingjum fyrir vestan. Haft er eftir höfundinum, að áframhald muni verða á útgáfu skemmtisagnanna um ókomin ár, eða a.m.k. meðan hann enn er “öl- og reiðfær”.
 
Skopsögur Gísla Hjartarsonar eru bráðholl og sprenghlægileg lesning, ungum sem öldnum, piltum og stúlkum, körlum og kerlingum. Sumar sögurnar eru dagsannar, aðrar lognar, fótur fyrir enn öðrum, en allar verða þær auðvitað dagsannar þegar þær eru komnar á bók. Þjóðsögurnar eru hin besta lækning fyrir sálarlífið, eins og dæmin sanna. Sögusviðið er allt hið gamla Vestfjarðakjördæmi, frá Brú í Hrútafirði, norður og vestur um Vestfjarðakjálkann, og inn að Gilsfjarðarbotni."
 
Loks fylgja til gamans þrjár sögur af Ströndum úr 8. bindi vestfirsku þjóðsagnanna. Hægt er að nálgast bókina, og fyrri bækur, m.a. með því að hringja í Gísla Hjartarson í síma 456 3948 eða senda tölvupóst í stapi@simnet.is og þá verður hún send til viðkomandi í pósti, árituð af höfundi ef óskað er.

  

Fjárfesting
 
Þegar Eiríkur Ingvason hætti búskap á Borðeyrarbæ í Bæjarhreppi í Hrútafirði fyrir nokkru seldi hann ærnar nágrönnum sínum. Þeir sem komu fyrstir fengu yngra féð en hinir það eldra. Sigurður Kjartansson á Hlaðhamri var með þeim síðustu í fjárkaupunum. Hann fékk því í sinn hlut einungis horrollur og gamalær.
          Haustið eftir fjárkaupin hringdi Björgvin Skúlason á Ljótunnarstöðum í Sigurð á Hlaðhamri og tilkynnti að hann ætti hjá sér kind, ansi gamla, horaða og hrörlega greyið. Sigurður brá við og fór út að Ljótunnarstöðum. Björgvin er varfærinn og hæglátur maður. Þegar þeir voru að skoða ána sagði Björgvin, sem er lítillega smámæltur, með hægð við Sigurð:
          Þessi æg mun vega fgá Eigíki á Bogðeygagbænum?
          Sigurður jánkaði því.
          Þá sagði Björgvin:
          Þú hefug ekki vegið í langtíma fjágfestingu.

  

Góður undirvöxtur
 
Hjörtur Þór Hjartarson, bóndi á Geirmundarstöðum í Selárdal í Steingrímsfirði, hefur lengi jafnframt búskapnum stundað verslunarstörf í Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík og gerir enn.
          Eitt sinn fyrir mörgum árum þegar Hjörtur var við vinnu sína í pakkhúsi Kaupfélagsins kom Guðjón Oddsson á Þorpum og bað hann um 25-30 sentímetra langan slöngubút. Gaui rak þá vélaverkstæði á Þorpum rétt við þjóðveginn. Þegar Hjörtur kom með bútinn að afgreiðsluborðinu spurði Gaui hvað hann kostaði.
          Það tekur því ekki að láta þig borga fyrir þetta lítilræði. Búturinn nær varla tittlingslengd.
          Gaui hváði við.
          Ég miða nú bara við minn, sagði Hjörtur.

 

Næsti bær við
 
Þorsteinsína Guðrún Gestsdóttir frá Víðidalsá í Steingrímsfirði er greindarkona en á það til að vera fljótfær og mismælir sig oft í flumbruganginum. Mörg fleyg ummæli eru höfð eftir Ínu, eins og hún er jafnan kölluð. Ína bjó lengi á Hólmavík ásamt Jóni Arngrímssyni manni sínum en fluttist suður í Garð fyrir nokkrum árum.
          Vorið 1998 var verið að ferma yngsta barnið þeirra og eina strákinn, Arnþór að nafni. Eftir fermingarveisluna sagði Ína við mann sinn að sér leiddist að ekki yrðu fleiri fermingar hjá þeim. Jón svaraði:
          Það er nú ekki mikið mál að kippa því í lag, Ína mín.
          Þá gall í Ínu:
          Er það nú ekki nokkuð seint í rassinn rekið, Jón minn?

 

Forsíða bókarinnar