05/12/2024

Útsæðinu potað niður

Vorboðarnir láta á sér kræla einn af öðrum, en sumir fljúga um háloftin meðan aðrir róta í moldarbeðum. Þessir ljúfu vorboðar urðu á vegi Sigurðar M. Þorvaldssonar heimildarmanns strandir.saudfjarsetur.is  í blíðviðrinu í dag þar sem þeir rótuðu í moldarbeði og sáðu fyrir rófum og hverskyns grænmeti. Allt eru þetta kunnir góðborgarar á Hólmavík eins og sjá má á meðfylgjandi myndum Sigurðar hér að neðan. Þar eru Sigurrós Þórðardóttir (Amma Rósa) og Sverrir Guðbrandsson ásamt einum ávaxta sinna, Þórði, sem fyrir allnokkru var sáð fyrir. Hann tjáði heimildamanni að hann hefði reyndar ákveðið að helga sig garðrækt fyrst hann náði ekki kjöri sem páfi í vikunni sem leið, um leið og hann tyllti sér varlega niður á þúfuskrattann og fylgdist með foreldrum sínum róta í beðinu.